Fyrsta loðna ársins í Neskaupstað

25.01.2016 - 17:22
Loðna
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Fyrstu loðnu ársins var landað á laugardaginn af grænlenska uppsjávarskipinu Polar Amaroq í Neskaupstað. Það voru 710 tonn af frosinni loðnu og 30 tonn sem fóru í mjöl og lýsi. Á vef Síldarvinnslunnar segir að hún hafi fengist í trollhólfi norðaustur af Langanesi og skipstjórinn Halldór Jónasson lætur vel af ferðinni.

Nú er Geir Zoëga við stjórnvölinn á Polar Amaroq sem hélt aftur til veiða á laugardagskvöldið og segist hann hafa fengið 400 tonn á sömu slóðum í gær eftir tveggja tíma hal. Vel hafi gengið að frysta og lítið flokkist frá. Á miðunum sé líflegt mikið af loðnu og allt morandi í hval.

Samkvæmt nýjum mælingum Hafrannsóknastofnunar sem lauk í síðustu viku og aflareglu sem sett var í fyrravor verður heildraraflamark loðnu á núverandi vertíð 173 þúsund tonn.