Fyrsta afkvæmi pokadýrategundar í fimm ár

19.07.2017 - 06:38
epa03222052 A southern-hairy nosed wombat emerges from underneath the belly of its parent at Melbourne Zoo in Melbourne, Australia, 16 May 2012. The baby, in Australian known as a joey, is the first of this species to be born at Melbourne Zoo.  EPA/JULIAN
 Mynd: EPA
Ástralskir dýraverndunarsérfræðingar eru í skýjunum vegna fæðingar vambaunga í landinu. Unginn er af tegund norðlenskra loðtrýnis-vamba, en aðeins eru um 250 þeirra í villtri náttúrunni. Unginn kom úr poka móður sinnar á náttúruverndarsvæði í Queensland sem komið var á laggirnar fyrir átta árum. Þetta er aðeins annað af tveimur svæðum sem þessi vambategund heldur til á.

Steven Miles, umhverfisráðherra Queensland, segir starfsmenn verndarsvæðisins hafa fylgst með móðurinni síðustu 10 mánuði. Biðin hafi verið löng en vel þess virði, því unginn er sá fyrsti sinnar tegundar í fimm ár. Karldýr sem kynnt var til sögunnar á verndarsvæðinu í fyrra virðist því aðlagast aðstæðum nokkuð vel.

Þrjár tegundir vamba lifa í Ástralíu, fyrrnefndir norðlenskir loðtrýnis-vambar, sunnlenskir frændur þeirra og svo hefðbundnir vambar.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV