Fyrrum ráðherra framseldur til El Salvador

09.01.2016 - 04:14
The former defense minister of El Salvador, Jose Guillermo Garcia-Merino arrives at the ''Oscar Arnulfo Romero'' international airport in San Luis Talpa, El Salvador, Friday, Jan. 8, 2016. Garcia was deported from the U.S. for his role
Jose Guillermo Garcia, fyrrum varnarmálaráðherra El Salvador.  Mynd: AP
Fyrrum varnarmálaráðherra El Salvador var framseldur frá Bandaríkjunum til El Salvador vegna gruns um mannréttindabrot. Brotin voru framin á tímum borgarastyrjaldarinnar í landinu á milli 1980 og 1992.

Jose Guillermo Garcia, sem er orðinn 82 ára, fékk óblíðar móttökur á alþjóðaflugvellinum í San Salvador í gær. Hópur mannréttindasinna gerði hróp að honum og sögðu hann morðingja. Garcia gegndi embætti varnarmálaráðherra á árunum 1979 til 1983, en í stjórnartíð hans var erkibiskupinn í San Salvador myrtur í miðri messu og 800 voru stráfelldir í þorpinu El Mozote.

Nokkrir ráðherrar flúðu til Bandaríkjanna að borgarastyrjöldinni lokinni. Garcia hugðist sækja um áframhaldandi dvalarleyfi í Bandaríkjunum en því var hafnað á grundvelli mannréttindalaga. Bandarísk yfirvöld framseldu annan fyrrum varnarmálaráðherra, Carlos Eugenio Vides, sem gegndi embætti frá 1984 til 1989, til El Salvador.

Borgarastríðið í El Salvador stóð á milli stjórnarhersins, sem Bandaríkin studdu, og vinstri sinnaðra skæruliða sem nutu liðsinnis Sovétríkjanna og Kúbu. Yfir 75 þúsund féllu í styrjöldinni og yfir 7.000 er saknað.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV