Fyrrum FBI-forstjóri rannsakar Rússatengslin

18.05.2017 - 01:41
epa05970899 (FILE) A file picture dated 13 June 2013 shows then FBI Director Robert Mueller as he testifies before the House Judiciary Committee hearing on Federal Bureau of Investigation (FBI) oversight on Capitol Hill in Washington DC, USA. According to
 Mynd: EPA
Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur skipað Robert Mueller, fyrrverandi forstjóra alríkislögreglunnar FBI, til að stjórna ítarlegri rannsókn á mögulegum afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016 og samkrulli þeirra og starfsmanna Trump-framboðsins. Donald Trump brást við þessum tíðindum með ósk um að menn haski sér við rannsóknina, enda liggi fyrir að engin tengsl séu milli framboðs hans og Rússa.

 Æ fleiri áhrifamenn innan Repúblikanaflokksins hafa að undanförnu tekið undir háværar kröfur kollega sinna í Demókrataflokknum um nauðsyn þess að draga samskipti hinna ýmsu trúnaðarmanna Donalds Trumps við Rússa fram í dagsljósið. Sá þrýstingur jókst til muna í þessari viku, eftir að Trump blandaðist í þessi mál í eigin persónu í tveimur aðskildum tilfellum.

Annars vegar bauð forsetinn utanríkisráðherra og sendiherra Rússlands í fordæmalausa heimsókn á forsetaskrifstofuna í Hvíta húsinu. Á mánudag kom í ljós að á þeim fundi hafði Trump veitt gestum sínum leynilegar upplýsingar sem bandarískri leyniþjónustu bárust frá kollegum sínum í Ísrael.

Daginn eftir bárust fréttir af tilraun Trumps til að fá James Comey, fyrrverandi forstjóra FBI, til að fella niður rannsókn FBI á samskiptum MIke Flynns, fyrrum þjóðaröryggisráðgjafa Trumps, við rússneska erindreka. Þessar fréttir bárust viku eftir að Trump rak Comey úr forstjórstöðu FBI. Kallað hefur verið eftir því á Bandaríkjaþingi, að skriflegir minnispunktar Comeys um fund þeirra Trumps verði lagður fyrir þingnefnd ásamt öllum gögnum öðrum sem varpað geti ljósi á málið.

Aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna, Rod Rosenstein, hefur nú skipað Mueller, sem var forstjóri FBI frá 2001 til 2013, sem stjórnanda sérstakrar rannsóknar á meintum afskiptum Rússa af kosningunum og mögulegu makki þeirra með kosningateymi Trumps. Í yfirlýsingu frá Rosenstein segir að málsatvik öll séu með þeim hætti, að til að tryggja almannahag telji hann nauðsynlegt að rannsóknin lúti stjórn manns sem njóti ákveðins sjálfstæðis í störfum sínum og lúti ekki agavaldi núverandi stjórnarherra. 

Trump, sem sakaður hefur verið um að tefja fyrir rannsókn á þessum málum öllum, brást snarlega við fréttunum af skipan Muellers og boðaðri rannsókn. Sagðist hann saklaus af öllum ávirðingum um leynimakk með Rússum og kallaði eftir því að Mueller og teymi hans hefðu hraðar hendur. „Ítarleg rannsókn mun staðfesta það sem við vitum fyrir - að það var aldrei neitt samkrull milli kosningaskrifstofu minnar og nokkurs erlends aðila,“ segir í stuttri og stuttaralegri yfirlýsingu forsetans. „Ég hlakka til að sjá þetta mál leyst með skjótum hætti.“ Ekki er minnst sérstaklega á skipun Muellers sem stjórnanda rannsóknarinnar í yfirlýsingu forsetans.