Fyrirliði Þórs: Öryggismiðstöðin vaktar bæinn

12.02.2016 - 14:56
Mikil stemning hefur skapast í bæjarfélögunum Grindavík, Stykkishólmi og Þorlákshöfn en einnig meðal stuðningsmanna KR fyrir bikarúrslitaleikina í körfubolta sem verða á morgun. Fyrirliði karlaliðs Þórs í Þorlákshöfn vonast til að bærinn verði tómur meðan á leiknum stendur.

Þór í Þórlákshöfn leikur nú til bikarúrslita í fyrsta sinn og mætir KR í úrslitaleik karla en KR hefur oftast allra orðið bikarmeistari eða 10 sinnum.

„Bærinn er mjög spenntur. Íþróttahúsinu og fleiru verður lokað svo fólk komist á leikinn. Ég býst ekki við að það verði margir eftir í Þorlákshöfn.

- Eruð þið búnir að hringja í Securitas til að láta vakta bæinn?

- Nei, það er Öryggismiðstöðin.“ segir Emil Karel Einarsson, fyrirliði Þórs léttur í bragði.

Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá samanklippt viðtalsbrot við Emil, Einar Árna Jóhannsson, þjálfara Þórs og þá Finn Frey Stefánsson þjálfara KR og fyrirliðann Brynjar Þór Björnsson.

Bikarúrslitaleikur KR og Þórs á morgun hefst klukkan 16:30 í beinni útsendingu á RÚV. Bikarúrslitaleikur Snæfells og Grindavíkur í kvennaflokki hefst klukkan 14:00.

 

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður