„Fyrirgefningin var ekki fyrir nauðgara minn“

08.03.2017 - 08:39
Mynd með færslu
 Mynd: TED
Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, sem vakið hefur heimsathygli fyrir bók sína Handan fyrirgefningarinnar, var meðal gesta í sjónvarpsþættinum Q&A sem sýndur var á áströlsku sjónvarpsstöðinni ABC á mánudag. Þar varði hún þá ákvörðun sína að hafa samband við manninn sem nauðgaði henni þegar hún var sextán ára. Fyrirgefningin hafi ekki verið ætluð fyrir hann heldur hana - til að hún gæti skilað skömminni „sem var að leggja líf mitt í rúst“.

Breska blaðið Guardian er með nokkuð ítarlega umfjöllun um sjónvarpsþáttinn á vef sínum. Þar kemur meðal annars fram að nokkuð hart var sótt að Þórdísi í þættinum vegna þeirrar ákvörðunar að stíga fram með nauðgara sínum, Ástralanum Tom Stranger.

Meðal annars mælti Josephine Cashman, lögmaður og einn þátttakenda í pallborðsumræðunum, gegn því að önnur fórnarlömb nauðgana veldu sömu leið og Þórdís. Hún myndi litlu skila fyrir hið „venjulega fórnarlamb“. „Ég myndi ráðleggja fólki gegn þessari leið vegna þess að dómstólar og lögreglan eru besta leiðin. Ef einhver nauðgar þér þá er best að fara til lögreglunnar.“

Cashman gagnrýndi jafnframt að Stranger, sem skrifar bókina með Þórdísi, skyldi fá væna summu fyrir bæði sölu bókarinnar og fyrirlestraferðina í tengslum við hana. Þórdís Elva svaraði því til að að hún fengi meirihlutann af sölunni og Stranger væri að íhuga að gefa sinn hlut til góðgerðarmála.

Þáttarstjórnandinn spurði Þórdísi hvernig hún gæti fyrirgefið einhverjum sem hefði framið slíkan glæp. Þórdís sagði að hún hefði í fyrstu ekki áttað sig á því hvað þarna hefði gerst. Og þegar hún áttaði sig var Stranger farinn úr landi. Þannig að hún hefði gert eins og svo margir aðrir, reynt að deyfa sársaukann og það hefði gengið í níu ár. Þá hefði hún verið á barmi taugaáfalls og gripið til sinna ráða. „Fyrirgefningin var aldrei ætluð honum; það er mjög algengur misskilningur. Hún var fyrir mig þannig að ég gæti skilað skömminni sem var að leggja líf mitt í rúst.“ 

Þórdís sagði enn fremur að þeir sem færu í gegnum dómskerfið upplifðu stundum of væga dóma. Það að hún og Stranger væru saman á sviði væri ekki leið til að gefa honum eitthvert vægi heldur „gefst nauðgara þarna tækifæri til að lýsa þeim ólýsanlega sársauka sem hann hefur valdið“.

Hún sagði að þetta væri leið til að berjast gegn normalíseringu kynferðisbrota, að þau væru bara hluti af karlamenningu og karlagrobbi.  „Við erum að reyna að snúa þessu á haus og segja að þetta sé rangt og að einhver verði að taka ábyrgð.“