Fylgjast þarf með notkun Roundup og Clinic

29.08.2013 - 19:51
Mynd með færslu
Fylgjast þarf vel með þeim svæðum þar sem illgresis-eyðar eins og Roundup eru notaðir segir sérfræðingur. Vegagerðin hefur notað slík efni til að eyða gróðri meðfram vegum.

Vegagerðin hefur notað illgresiseyði eins og Roundup og Clinic til að eyða gróðri við vegkanta í um skeið. Athygli vakti þegar efninu var úðað á gróður austan Jökulsárbrúar í Öxarfirði því þar mátti sjá gullvíðikjarr lauflaust og dautt.

Í Roundup og Clinic er efnið glyfosati sem er einn mest notaði illgresiseyðir í heiminum. Margir hafa áhyggjur af notkun hans enda hafa rannsóknir sýnt að hann getur haft skaðleg áhrif á fólk. Efnið hefur fundist í drykkjarvatni í Evrópu og verið greint í þvagi fólks.

Þórhallur Ingi Halldórsson, dósent við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, segir að reynt sé að lágmarka styrk þessara efna í matvörum eins og hægt er. Því hafi menn áhyggjur af því, en svo þegar komi að því að sanna tengsl einstaka tegunda af þessum efnum við sjúkdóma sé það nánast ómögulegt. 

Í Danmörku er efnið notað til dæmis á hveitiökrum og er notkunin að meðaltali 36 kíló á hektara. Til samanburðar er notkunin um það bil 10 grömm á hektara á Íslandi. Ef nota á efnið í miklum  mæli meðfram vegum hér á landi þarf að hafa í huga að hér er kaldara og efnið brotnar því hægar niður.  

„Ef menn ætla að nota þetta kerfisbundið ættu menn að taka mælingar og fylgjast mjög vel með þeim svæðum þar sem menn hafa verið að nota þetta kannski meira heldur en maður hefur verið að gera sunnar í Evrópu þar sem hitastigið er mikið hærra. Svona efni eru hættuleg en ef þau eru notuð rétt eins og hefur verið gert í matvælaframleiðslu þá er hægt að lágmarka skaðan og fengið þá meiri uppskeru og allt eftir því,“ segir Þórhallur Ingi Halldórsson.