Fylgjandi einkarekstri í fríhafnarverslun

29.01.2016 - 01:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra telur skynsamlegt að auka þátttöku einkafyrirtækja í rekstri fríhafnarverslana en telur jafnframt mjög mikilvægt að í þeim efnum verði vandlega gætt að því að raska ekki samkeppnisstöðu gagnvart þeim sem stundi rekstur utan flugvallarsvæðisins. Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Vilhjálms Árnasonar um eignarhald á flugstöð Leifs Eiríkssonar og fríhafnarverslun.

Fram kemur að ríkissjóður sem slíkur reki ekki fríhafnarverslun í flugstöðinni og í núverandi lagaumhverfi sé sérstaklega mælt fyrir um skyldu Isavia til að hafa með höndum rekstur fríhafnarverslana. Engar ákvarðanir hafi verið teknar á þessu stigi að breyta því en í ljósi hinnar gríðarmiklu uppbyggingar sem fyrirhuguð sé á flugvellinum og þeirra breytinga sem óhjákvæmilega muni verða á öllu rekstrarumhverfi hans á næstu árum sé ekki ólíklegt að þessi þáttur rekstrar Isavia sæti frekari skoðun í nánustu framtíð.

Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV