Fylgdarlaus börn í forgangi

05.03.2016 - 18:53
Cristina Dimakou, lögfræðingur hjá grísku Metadrasi-samtökunum, aðstoðar flóttabörn.
Cristina Dimakou, lögfræðingur hjá grísku Metadrasi-samtökunum, aðstoðar flóttabörn. Íslensk stjórnvöld styrkja samtökin í gegnum Uppbyggingarsjóð EES.  Mynd: Uppbyggingarsjóður EES
Ísland hefur á undanförnum misserum stutt þúsundir hælisleitenda í Grikklandi með þátttöku í verkefnum á vegum Uppbyggingarsjóðs EES. Fylgdarlaus börn og einstæðir foreldrar eru í sérstökum forgangi.

Hátt í ein milljón flóttamanna kom sjóleiðis til Grikklands í fyrra og það sem af er ári hafa yfir 120.000 manns lagt á sig hættuleg ferðalag yfir Eyjahafið, margfalt fleiri en á fyrstu vikum síðasta árs.

Grísk stjórnvöld hafa litla burði til að veita öllu þessu fólki nauðsynlega aðstoð og því hefur orðið að koma til kasta Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins og fleiri alþjóðastofnana.

Á meðal stofnana sem veita flóttamönnum aðstoð er Uppbyggingarsjóður EES, sem áður hét Þróunarsjóður EFTA. Ísland á aðild að sjóðnum, sem hefur á undanförnum misserum varið rúmum þremur milljörðum króna til að styrkja móttökustöðvar og athvörf fyrir hælisleitendur víðsvegar um Grikkland í samstarfi við þarlend hjálparsamtök. Hlutur Íslands í þessum framlögum er rúmar hundrað milljónir króna.

Dís Sigurgeirsdóttir, sérfræðingur hjá Uppbyggingarsjóði EES, segir að sérstök áhersla sé lögð á fylgdarlaus börn og einstæða foreldra. „Þessir hópar sem eru berskjaldaðir eru í sérstökum forgangi hjá okkur. Það sem hefur verið gert fyrir þá er að það eru athvörf sem þessir hópar fá aðgang að, veita þeim húsaskjól og alla helstu þjónustu á meðan þau eru að bíða eftir vinnslu hælisumsóknanna og þeir aðstoðaðir við að útfylla hælisumsóknir og veitt húsaskjól á meðan á því stendur,“ sagði Dís í viðtali við fréttastofu RÚV í dag.

Þetta skjól er hins vegar aðeins til bráðabirgða, þorri flóttafólksins heldur áfram norður á bóginn. Nú er hins vegar orðið nær ómögulegt að komast landleiðina frá Grikklandi til grannríkjanna.

Hörmulegt ástand ríkir í búðum við makedónsku landamærin, þar hafast nú við þrettán þúsund manns við þröngan kost. Þá hafa stjórnvöld í Búlgaríu ákveðið að senda fjölmennt herlið til að tryggja víggirt landamærin áður en flóttafólkinu fjölgar enn með vorinu. Leiðtogar ESB ríkjanna og Tyrklands þinga á mánudaginn um flóttamannavandann.