Fúsi besta ástarmyndin - þrenn verðlaun í Mons

27.02.2016 - 03:39
Mynd með færslu
Dagur Kári hampar verðlaununum fyrir bestu kærleikskvikmyndina á hátíðinni í Mons.  Mynd: NN  -  twitter
Kvikmyndin Fúsi eftir Dag Kára sópaði til sín verðlaunum á kvikmyndahátíð kærleikans í Mons í Belgíu, sem lauk í gær. Fúsi fékk aðalverðlaun hátíðarinnar sem besta kvikmyndin, en hún var einnig verðlaunuð fyrir besta handritið og Gunnar Jónsson var valinn besti karlleikari í aðalhlutverki. Þetta var 32. FIFA-Mons-kvikmyndahátíðin, en á henni er lögð áhersla á kvikmyndir sem hylla ástina og kærleikann með frumlegum og heillandi hætti.

12 kvikmyndir víðs vegar að úr veröldinni voru í aðalkeppninni en óhætt er að segja að þeir Dagur Kári og Fúsi hafi átt sviðið á lokakvöldinu. Moran Rosenblatt var verðlaunuð fyrir frammistöðu sína í aðal-kvenhlutverki myndarinnar Wedding Doll en rúmenska kvikmyndin Bucarest Non Stop eftir Dan Chisú fékk sérstök dómnefndarverðlaun.