Fundur Penn og Guzmans mikilvægur

12.01.2016 - 00:40
epa05094928 (FILE) A composite image of three file photos showing (L-R) alleged Mexican drug lord Joaquin 'El Chapo' Guzman in Los Mochis, Mexico, 08 January 2016; US actor Sean Penn in London, Britain, 16 February 2015; and Mexican actress Kate
Guzman, Penn og Kate del Castillo sem leiddi þá saman.  Mynd: EPA  -  EPA FILES
Leynifundur bandaríska leikarans Sean Penn með eiturlyfjabaróninum Joaquin Guzman hjálpaði yfirvöldum verulega við að finna hann, að sögn ríkissaksóknara Mexíkó. Yfirvöld birtu í dag myndband af handtöku Guzmans.

Fréttastofa Reuters hefur eftir Arely Gomez, ríkissaksóknara, að yfirvöld hafi fylgst með ferðum lögmanns Guzmans. Lögmaðurinn fylgdi þeim Penn og mexíkósku leikkonunni Kate del Castillo að felustað Guzmans í frumskógum Mexíkó. Gomez segir fundinn því hafa verið mjög mikilvægan lið í því að Guzman var handsamaður á föstudag eftir sex mánuði á flótta.

Unnið er að því að fá Guzman framseldan til Bandaríkjanna. Gomez segir að yfirleitt taki það um ár að framselja eiturlyfjabaróna, en í tilfelli Guzmans gæti það tekið allt að fimm ár.

Mexíkósk yfirvöld sendu frá sér stutt myndband í dag þar sem innrás sérsveitar á felustað Guzmans er sýnd. Guzman komst úr húsinu í gegnum skolplögn en sérsveitarmenn handsömuðu hann fyrir utan.