Fundu milljarða í ferðatöskum og pappakössum

epa06186186 A handout photo made available by the Brazilian Federal Police shows boxes and suitcases filled with money that were found by authorities at an apartment that was used by former minister Geddel Vieira Lima, close collaborator of President
 Mynd: EPA-EFE  -  Brazilian Federal Police EFE
Lögregla í brasilísku borginni Salvador fann í dag tugi milljóna brasilískra ríala í reiðufé, andvirði milljarða króna, í ferðatöskum og pappakössum í íbúð sem tengist áhrifamanni í brasilísku ríkisstjórninni. Seðlarnir fundust við húsleit í íbúð sem talið er að Geddel Vieira Lima, sem til skamms tíma var aðstoðarráðherra í ríkisstjórn Michels Temer, Brasilíuforseta, hafi haft til afnota. Svo mikið reiðufé fannst á vettvangi að lögregla flutti ekki færri en sjö seðlatalningavélar á staðinn.

Þegar langt var liðið á kvöld var búið að telja ríflega 33 milljónir ríala, jafnvirði um 1.100 milljóna íslenskra króna, samkvæmt upplýsingum lögreglu, sem sagði talningu langt í frá lokið. Í yfirlýsingu frá lögreglunni segir, að miðað við seðlabunkana sem enn væru ótaldir mætti búast við því að talningin stæði fram á morgun.

Húsleitin var gerð í tengslum við lögreglurannsókn á umfangsmiklu fjársvikamáli í ríkisbankanum Caixa Economica Federal, þar sem Lima var háttsettur yfirmaður í stjórnartíð Dilmu Roussef. Sem fyrr segir var hann aðstoðarráðherra og ráðgjafi eftirmanns Roussef, Michel Temer, en var settur af í júlí síðastliðnum, handtekinn og dæmdur í stofufangelsi á meðan mál sem honum tengjast eru í rannsókn. Er hann einn fjölmargra háttsettra stjórnmála- og embættismanna í Brasilíu sem hafa misst embætti sín og jafnvel frelsi vegna víðtækra spillingarmála sem skekið hafa brasilískt samfélag síðustu misseri. Dilma Roussef, forveri Temers á forsetastóli, er líka í þeim hópi, en henni var birt formleg ákæra fyrir spillingu og fjársvik þennan sama dag.