Fundu 17 fjöldagrafir til viðbótar

20.04.2017 - 05:51
Mynd með færslu
Stj´rnarhermenn í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó eru sakaðir um að ganga fram af óhóflegri hörku gegn uppreisnarmönnum.  Mynd: EPA
Rannsóknarhópur á vegum Sameinuðu þjóðanna hefur fundið 17 fjöldagrafir til viðbótar þeim sem áður hafa fundist í Kasai-héruðunum í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Minnst 74 lík voru í gröfunum, þar af 30 af börnum. Zeid Raad Al Hussein, framkvæmdastjóri mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum, greindi frá þessu í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær. Krafðist hann þess að ríkisstjórn landsins beitti sér fyrir ítarlegri rannsókn óháðra aðila á því sem á hefur gengið í Kasai undanfarin misseri.

Gerðu stjórnvöld það ekki, sagði Hussein, myndi hann hvetja Alþjóða glæpadómstóllinn í Haag til að gera það.

Ítrekað hefur komið til blóðugra bardaga milli stjórnarhersins og vopnaðra sveita heimamanna í Mið- og Austur-Kasai og fullvíst þykir að átökin hafi kostað fjölda almennra borgara lífið. Í yfirlýsingunni segist Hussein hafa heimildir fyrir því að grafirnar 17 hafi verið teknar af liðsmönnum stjórnarhersins eftir bardaga við vígamenn Kamuina Nsapu-samtakanna í Mið-Kasai í mars síðastliðnum.

„Minnst 74 manneskjur, þar á meðal 30 börn, eru sagðar hafa verið drepnar af hermönnum,“ segir Hussein, en tilgreinir þó ekki heimildir sínar. Þá segir hann að frásagnir hafi borist af því að stjórnarhermenn hafi skotið minnst 40 til bana og nauðgað konum og stúlkum í héraðshöfuðborginni Kananga í síðasta mánuði. Heimildir Husseins herma að flest fórnarlömbin hafi verið skotin á heimilum sínum, þegar stjórnarhermenn gengu hús úr húsi í leit að vígamönnum.

Rannsóknarhópur Sameinuðu þjóðanna hefur nú skráð 40 fjöldagrafir og líkamsleifar ríflega 400 manns sem í þeim hafa fundist síðan í ágúst í fyrra. Stjórnvöld í Lýðstjórnarlýðveldinu segjast munu hefja rannsókn á ásökunum um fjöldamorð og aðra meinta glæpi stjórnarhersins um leið og þau fái sönnunargögn í hendur.

Lambert Mende, talsmaður ríkisstjórnarinnar, segir að rannsóknarhópur Sameinuðu þjóðanna þurfi að koma gögnum sínum í hendur stjórnvalda. „Síðan munum við hefja rannsókn,“ hefur al Jazeera-fréttastöðin eftir honum. Stjórnvöld hafa hingað til vísað því á bug að hermenn þeirra hafi beitt óhóflegu ofbeldi í baráttu sinni við uppreisnarmenn úr röðum Kamuina Nsapu.

Stjórnarhermenn felldu leiðtoga og nafngjafa samtakanna í ágúst í fyrra, og það víg hratt af stað vígaferlunum sem enn standa. Nýlega skiluðu yfirvöld líki leiðtogans í hendur ættmenna hans í heimaþorpinu, sem var ein helsta krafa fylgismanna hans. Óvíst er hversu langt það dugar til að lægja ófriðarbálið, segir í frétt al Jazeera, eftir allar þær blóðsúthellingar sem orðið hafa í millitíðinni. Hundruð hafa týnt lífi og um 200.000 hrakist á vergang, samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV