Fundað um lyfjaskort

15.11.2012 - 19:59
Mynd með færslu
Lyfjastofnun ætlar að boða til fundar með lyfjaframleiðendum og opinberum stofnunum í næstu viku til að ræða hvernig er hægt að bregðast við lyfjaskorti á Íslandi.

Læknar hafa lýst áhyggjum af því að ekki sé hægt að treysta því að lyf sem þeir ávísi séu til í landinu. Tvær ástæður eru helstar fyrir skortinum. Annars vegar hafa lítið notuð lyf verið tekin af markaði vegna þess að ekki borgar sig fyrir lyfjafyritækin að hafa þau á skrá, og hins vegar eru lyf sem eru á markaði stundum ófáanleg um lengri eða skemmri tíma.

Í vikunni var greint frá því að Flúoxetín, mikið notað þunglyndislyf frá Actavis, hefði verið ófáanlegt í meira en mánuð.

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis á Íslandi, segir að framleiðandi virka efnisins sem fyrirtækið þurfi að kaupa hafi lenti í vandræðum með sína framleiðslu. Það hafi tekið hann nokkra mánuði að leysa það og nú sé það leyst og sem betur fer þá komi það í sölu í dag.

Guðbjörg telur ekki að vandinn hafi aukist að undanförnu þó vissulega séu alltaf nokkur lyf ófáanleg enda geti alltaf eitthvað farið úrskeiðis í framleiðslunni.

Um lyf sem hafa verið tekin af markaði vegna lítillar sölu segir Guðbjörg að erfitt sé að halda lítið notuðum lyfjum á markaði í litlum löndum eins og Íslandi enda sé ekki hægt að panta eða framleiða lyf í mjög litlu magni. Því geti lágmarkspöntun samsvarað fimm ára birgðum og lyf endist ekki svo lengi. Hún segir þó að stór fyrirtæki eins og Actavis beri samfélagslega ábyrgð. Actavis hafi í gegnum tíðina gert allt sem í valdi fyrirtækisins standi
til að útvega lyf frá öðrum ef það hætti að framleiða lyfið. Actavis hafi átt mjög gott samstarf við Lyfjastofnun um það og unnið það alveg í samvinnu við þá að finna lyf og fá samþykkt markaðsleyfi fyrir þau á Íslandi. Guðbjörg segir þó dæmi um það það hafi ekki tekist.

Geir Gunnlaugsson landlæknir segir að barnalæknar hafi sérstaklega fundið fyrir lyfjaskortinum. Hann segir að síðast hafi verið fundað um málið með hagsmunaaðilum fyrir tveimur árum en þá hafi komið í ljós að málið væri flókið. Niðurstaðan þá hafi verið að fá lista frá barnalæknum yfir lyf sem vantaði. Sá listi virðist ekki hafa skilað sér til lyfjafyrirtækja.

Velferðarráðherra segist ekki geta lofað lausn innan skamms tíma en efnt verður til fundar hjá Lyfjastofnun í næstu viku til að greina stöðuna og ræða úrræði. Þeir sem verða boðaðir eru landlæknir, lyfjagreiðslunefnd, samtök lyfjaframleiðenda, Sjúkratryggingar Íslands og velferðarráðuneytið.