Frystitogari fyrir 5,5 milljarða

06.03.2015 - 11:28
Tölvugerð mynd af nýjum rystitogara Ramma hf.
 Mynd: rammi  -  www.rammi.is
Sjávarútvegsfyrirtækið Rammi hf. hefur samið um smíði á nýjum frystitogara hjá Tersan skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Kaupverð skipsins er 5,5 milljarðar króna og gert er ráð fyrir að það verði afhent í desember 2016.

Nýi togarinn leysir af hólmi frystitogarana Mánaberg og Sigurbjörgu, sem báðir eru komnir til ára sinna. Mánaberg er 43 ára en Sigurbjörg 36 ára. Frystigetan verður 90 tonn á sólarhring, auk þess verður fiskimjölsverksmiðja um borð.

Þróunin í sjávarútvegi hefur verið sú að hverfa frá sjófrystingu og auka áherslu á landvinnslu og hafa fyrirtæki verið að kaupa nýja ísfisktogara og fækka frystitogurum. Ólafur Marteinsson, framkvæmdastjóri Ramma, segir að samsetning aflaheimilda fyrirtækisins ráði því að frystitogari hafi orðið fyrir valinu.

„Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að arðsemi nýja skipsins jafnast fyllilega á við landvinnslu og ísfiskútgerð, miðað við samsetningu aflaheimilda okkar. Ef sú ákvörðun hefði orðið ofan á að fara að gera út á ísfisk og vinna fisk í landi hefðum við þurft að fækka sjómönnum og líklega flytja inn vinnuafl til fiskvinnslu," segir Ólafur.

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV