Frumvarp um Haniye og Mary komið fyrir Alþingi

14.09.2017 - 10:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Jón Þór Víglundsson
Frumvarpi sem ætlað er að veita flóttabörnunum Hanyie Maleki og Mary Lucky ríkisborgararétt hefur verið lagt fram á Alþingi. Tuttugu og þrír þingmenn leggja fram frumvarpið, allir þingmenn úr öllum stjórnarandstöðuflokkum nema Framsóknarflokknum.

Lagt er til að Haniye og Mary og fjölskyldur þeirra fái íslenskan ríkisborgararétt. Í greinargerð með frumvarpinu er vísað til Barnasáttmál a Sameinuðu þjóðanna. Þar segir að það sem er barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang í ráðstöfunum hins opinbera varðandi börn. Börn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður skuli fá viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eiga og kveðið sé á um í barnasáttmálanum. 

Þá hafi umboðsamaður barna lýst áhyggjum af því að staða barna sem leita hér alþjóðlegrar verndar sé veik. 

Lagt er til að hin ellefu ára ríkisfangslausa stúlka, Haniye Maleki og faðir hennar, Afghaninn Abrahim Maleki fái ríkisborgararétt. Auk þess fái hin átta ára Mary Lucky, sem fædd er á Ítalíu og foreldrar hennar, hin nígerísku Sunday Iserien og Joy Lucky einnig íslenskan ríkisborgararétt.

Þá segir að frumvarpinu sé „ekki síður ætlað að senda stjórnvöldum skýr skilaboð um að löggjafinn ætlist til þess að réttindi bana séru virt í hvívetna við töku stjórnvaldsákvarðana þar sem hagsmunir þeirra séu í húfi“.  

 

Framsóknarflokkurinn er eini stjórnarandstöðuflokkurinn sem ekki leggur fram frumvarpið. Þórunn Egilsdóttir, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, sagði í samtali við fréttastofu að flokkurinn væri ekki búinn að taka afstöðu til málsins. „Við leggjum áherslu á jafnræði og réttlæti í meðferð þessara mála og að hagur barna sé hafður að leiðarljósi.  Það þarf að fara rétt með þessi mál, við förum eftir lögum og reglum í landinu. Þýðir ekki að við munum ekki styðja þetta frumvarp, hagur barna þarf alltaf að vera í forgrunni,“ segir Þórunn.