Frítekjumörkum húsnæðisbóta verði breytt

20.03.2017 - 19:18
Frá þingsetningu 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Reglugerð er í smíðum í velferðarráðuneytinu um breytingar á frítekjumörkum húsnæðisbóta. Þetta kom fram í svari Þorsteins Víglundssonar félagsmálaráðherra við fyrirspurn Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns Vinstri grænna á Alþingi í dag. Hann sagðist vonast til þess að reglugerðin verði tilbúin fyrir næstu mánaðamót.

Steinunn sagði ófá dæmi um það að fólk með lágar ráðstöfunartekjur greiði 60 prósent eða meira af sínum tekjum í leigu. Húsnæðisbætur ríkisins byrji núna að skerðast við rúmar 258 þúsund krónur í tekjur.

Steinunn spurði ráðherra hvenær hann hyggist gera breytingar á fjárhæðum frítekjumarka miðað við árstekjur þannig að öryrkjar sem búa einir og hafa einungis tekjur frá Tryggingastofnun njóti fullra húsnæðisbóta. Hún benti á að frá fyrsta maí verði lágmarkstekjur hækka upp í 280 þúsund krónur fyrir þá sem hafa verið sex mánuði á vinnumarkaði. Þó svo hún spyrji sérstaklega um öryrkja þá eigi fyrirspurnin einnig um fleiri hópa sem hafi lágar ráðstöfunartekjur og húsnæðisbætur skipta máli.  

Þorsteinn sagðist taka undir áhyggjur Steinunnar af stöðu á húsnæðismarkaði almennt. Þar sé kostur margra mjög þröngur, sérstaklega vegna skorts á húsnæði. Sérstakur átakshópur sé að störfum á vegum ríkisstjórnarinnar að vinna að úrræðum sem ríkisstjórnin geti gripið til til að liðka fyrir þessari þröngu stöðu á markaði. 

Þorsteinn segir um frítekjumörkin, eins og þau eru nú, skýrast af því að frá því að Alþingi afgreiddi lög um húsnæðisbætur síðasta haust hafi tekjuforsendur lægstu bóta breyst. Því hafi orðið misræmi milli lægstu bóta og frítekjumarka húsnæðisbótakerfisins. „Það gefur augaleið og er eðlilegt að vænta þess að einstaklingur á lágmarksbótum sem býr einn njóti fullra húsnæðisbóta. Þannig að þessu munum við breyta og erum þegar að undirbúa það og ég vænti þess að það geti gengið tiltölulega hratt og örugglega fyrir sig og taki gildi vonandi frá og með næstu mánaðamótum ef vel tekst til.“

Steinunn Þóra spurði þá hvort ráðherra væru reiðubúinn til að upplýsa um það hver frítekjumörkin verði. Þorsteinn svaraði ekki þeirri spurningu. 

Horft til upphæðar en ekki hvaðan tekjur komi

Steinunn Þóra spurði einnig hvort ráðherra ætli að beita sér fyrir þeirri breytingu að uppbætur á lífeyri vegna lyfjakostnaðar og desemberuppbót verði ekki til þess að skerða húsnæðisbætur.  Þorsteinn svaraði því neitandi. „Grundvallaratriðið í endurskoðun húsnæðisbóta var að allar skattskyldar tekjur kæmu til frádráttar og að það væri gætt jafnstöðu milli einstaklinga óháð því hvaðan tekjur þeirra væru sprottnar. Húsnæðisbótakerfið var hannað með þetta í huga strax í upphafi. Þannig að það var bætt verulega og hafa verður í huga að hámarksfjárhæðin var hækkuð úr 22 þúsund krónum í 31 þúsund krónur og áætlað að útgjöld ríkissjóðs vegna þessa aukist um liðlega tvo milljarða til þess að ná þessari jafnstöðu. Ég held að það sé mikilvægt. Það skiptir gríðarlega máli í þessum stuðningskerfum okkar að mismuna fólki ekki eftir því hvaðan tekjur fólks koma heldur fyrst og fremst eftir því hvort þær séu háar eða lágar.“ Fólk njóti stuðnings á grundvelli þess að tekjur þess eru lágar en ekki hvaðan þær koma. 

Steinunn Þóra tók undir með Þorsteini að ekki væri rétt að mismuna fólki eftir því hvaðan það hafi laun sín. „Ég vil jafnframt benda á það að örorkulífeyrisþegar eru líklegir, vegna fötlunar sinnar, til að hafa háan lyfjakostnað og þess vegna finnst mér að kerfið verði að taka tilllit til þess. Mig langar því til að stinga því að ráðherranum hæstvirtum að önnur leið til að takast á við þann vanda er auðvitað að hækka bæturnar og þannig koma til móts við þá sem hafa háan lyfjakostnað.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV