Friðrik Dór: Hefur oft liðið betur

19.08.2017 - 22:43
Friðrik Dór Jónsson segir að sér hafi oft liðið betur eftir tónleika. Mörgum varð ljóst sem fylgdust með Tónaflóði Rásar 2 við Arnarhól í kvöld að Friðrik Dór átti í einhverjum vandræðum í byrjun tónleika sinna í kvöld, en hann og hljómsveit hans lenti í því að hluti hljóðkerfisins varð rafmagnslaus.

Friðrik Dór sagði í viðtali við Björgu Magnúsdóttur í kvöld að það sé alltaf gaman að spila fyrir Arnarhól, en honum hafi oft liðið betur eftir gigg. „Svona gerist bara, þetta er í beinni útsendingu og þar getur allt gerst. Við tókum þetta á kassann og keyrðum í gegnum þetta og skemmtum okkur vel,“ sagði Friðrik Dór. Þrátt fyrir vandamál með hljóðkerfið náði hann áhorfendum með sér, eins og svo oft áður, og var Arnarhóll við það að nötra þegar hópurinn söng með Söngvakeppni-slagara hans, Síðasta skipti. „Síðasta skipti er bara eitthvað töfralag, það verður allt betra. Þú getur fengið góðan hóp af fólki til að syngja lagið og þá líður þér bara vel. Það var gott að enda á því,“ sagði Friðrik Dór.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV