Frí á Alþingi vegna vetrarfrís grunnskólabarna

25.02.2016 - 15:40
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Engir þingfundir eru í dag og á morgun á Alþingi. Ástæðan er vetrarfrí grunnskólabarna.

Vigdís Hauksdóttir alþingismaður vekur athygli á þessu á Facebook-síðu sinni:

- úr því að þingið var sent í frí í dag – vegna frís í grunnskólum borgarinnar (fáránlegt.is) – fór ég og keypti inn fyrir helgina og splæsti á mig uppáhaldinu mínu.“  

Með færslunni er birt mynd af fallegum blómvendi, en Vigdís er, sem kunnugt er, rómuð smekkkona þegar kemur að gróðri jarðar og lærður blómaskreytingahönnuður.

Kristján Möller, 1. varaforseti Alþingis, staðfesti í samtali við fréttastofu að þegar starfsáætlun Alþingis var sett saman í fyrrasumar hafi verið ákveðið að gefa frí í dag vegna vetrarfrís grunnskólanemenda. Í staðinn verði þingfundur á föstudag í næstu viku, en venjulega eru engir þingfundir á föstudögum.

Fréttastofu er ekki kunnugt um að starfsmönnum annarra ríkisstofnanna sé gefið frí vegna vetrarleyfis grunnskólabarna.

Lausleg talning sýnir að 28 alþingismenn eiga börn á grunnskólaaldri. Vetrarfrí grunnskólabarna eru ekki alls staðar á sama tíma.

 

Mynd með færslu
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV