Fréttir af iPhone 6 byggðar á misskilningi

10.02.2016 - 11:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tómas Kristjánsson, framkvæmdastjóri og eigandi iSímans, sem er einn fremsti sérfræðingur varðandi iPhone á Íslandi, segir fréttir um að iPhone 6 símar verði mögulega ónothæfir, ef gert er við þá á verkstæðum sem ekki eru viðurkennd af Apple, byggðar á misskilningi.

Breska dagblaðið Guardian fullyrti á dögunum að þúsundur notenda iPhone 6 síma sitji uppi með verðlausa rándýra snjallsíma vegna þess að nýjasta uppfærsla stýrikerfis þeirra geri þá ónothæfa ef það greinir að eigendur símanna hafi látið gera við þá á verkstæði sem ekki njóti blessunar Apple tæknirisans. Aðgerðina megi rekja til einhvers sem er kallað ERROR 53, og fáir viti af en fari ekki framhjá neinum sem lendi í.

„Þessar fréttir eru byggðar á miklum misskilningi,“ segir Tómas Kristjánsson, framkvæmdastjóri iSímans, sem hefur gert við iPhone síma í áraraðir, í samtali við fréttastofu. „Þarna er aðeins um að ræða öryggisráðstöfun hjá Apple, ef skipt er um Home-takkann svokallaða.“

Síminn ónýtur ef heimahnappurinn bilar

Home-takkinn, eða heimahnappurinn, les fingrafar þess sem á símann, en fingrafaraskanni í hnappnum veitir aðgang að öllum gögnum símans, þar á meðal greiðslukortaupplýsingum.

„Apple býður upp á þjónustu í Bandaríkjunum sem heitir Apple Pay, þar sem hægt er að borga fyrir vörur og þjónustu með því að nota hnappinn, þannig að það gefur augaleið að um mikilvægt öryggistæki er að ræða,“ segir Tómas. 

Hann segir að ekki sé hægt að skipta um heimahnappa í iPhone 6 símum, ef hann bili sé um ábyrgðarmál að ræða en verði hann fyrir tjóni þá sé síminn ónýtur. Hann segir að eigendur síma sem bili með þessum hætti geti þó látið afrita gögn.

„Apple vill frekar að síminn verði ónothæfur, frekar en að eiga á hættu að viðkvæmar upplýsingar komist í hendur vafasamra einstaklinga.“

 

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV