Fréttatíminn kemur ekki út í dag

21.04.2017 - 11:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Enginn af þeim starfsmönnum Fréttatímans sem eiga inni laun síðan í síðasta mánuði hefur fengið greitt. Staðan er enn óbreytt frá mánaðamótum, að sögn framkvæmdastjórans Valdimars Birgissonar. Föstudagsútgáfa Fréttatímans kemur ekki út í dag.

Valdimar segir að starfsemi blaðsins hafi meira og minna legið niðri frá því að síðasta tölublað kom út fimmtudaginn 6. apríl. Fólk hafi ekki mætt til vinnu, að frátöldum honum sjálfum sem hafi unnið að því að fá nýja fjárfesta að útgáfunni. Það sé forsenda þess að hægt verði halda henni áfram en hafi ekki tekist enn. „Það eru margir áhugasamir en það hefur enginn tekið af skarið ennþá,“ segir hann.

Að sögn Valdimars stóð aldrei til að reyna að koma út blaði í kvöld eftir að starfsemin stöðvaðist fyrir tveimur vikum. „Það stóð alltaf til að ef af endurreisn yrði þá kæmi blað út 28. apríl eða 5. maí,“ segir hann.

Þóra Tómasdóttir, ritstjóri Fréttatímans, sagði fyrir tveimur vikum að tíu starfsmenn ættu enn eftir að fá greidd laun fyrir marsmánuð. Valdimar vill ekki staðfesta þá tölu en segir hins vegar að staðan hvað það varðar sé óbreytt.