Fresta flutningi flóttamanna til Rússlands

24.01.2016 - 02:16
Mynd með færslu
Landamærastöðin í Stóraskógi við Kirkjunes í Noregi.  Mynd: F. Clemenz  -  Wikimedia Commons
Norðmenn ákváðu í dag að hætta við að senda flóttamenn aftur til Rússlands að beiðni þarlendra stjórnvalda. Þetta kemur fram í yfirlýsingu utanríkisráðuneytis Noregs.

Utanríkisráðherra Rússlands hafði samband við norsk yfirvöld á föstudag og bað um nánara samstarf við rússnesk stjórnvöld áður en haldið yrði áfram að vísa flóttamönnum yfir landamærin.

Um 5.500 flóttamenn frá ýmsum löndum, aðallega Sýrlandi, Afganistan, Írak og Íran, fóru yfir landamærin frá Rússlandi til Noregs í fyrra. Landamærin liggja í gegnum Stóraskóg við Kirkjunes, sem er um 400 kílómetrum norðan við heimskautsbaug. Margir ferðuðust á reiðhjólum, því rússnesk yfirvöld meina fólki að fara yfir landamærin fótgangandi.

Norsk stjórnvöld ákváðu í nóvember að þeir flóttamenn sem búið hafi löglega í Rússlandi skyldu sendir þangað aftur. 13 voru fluttir yfir landamærin í fylgd lögreglu á þriðjudag. Fleiri áttu að fara á fimmtudag og föstudag en því var frestað.

Hópar sem berjast fyrir réttindum flóttamanna hafa gagnrýnt norsk stjórnvöld. Þeir segja Rússa standa sig illa í málefnum flóttamanna, það taki þá langan tíma að vinna úr umsóknum hælisleitenda. Af þeim rúmlega 5.000 flóttamönnum sem sótt hafa um hæli í Rússlandi síðustu sex ár hafa aðeins tveir fengið. Um 2.900 hafa hlotið tímabundna vernd.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV