Franskur ráðherra varar Breta við Brexit

03.03.2016 - 01:30
epa05117917 Emmanuel Macron, Minister of the Economy of France speaks during a panel session at the 46th Annual Meeting of the World Economic Forum, WEF, in Davos, Switzerland, 22 January 2016. The overarching theme of the Meeting, which takes place from
Emmanuel Macron, efnahagsráðherra Frakklands.  Mynd: EPA  -  KEYSTONE
Frakkar hætta að halda aftur af flóttamönnum í Calais sem vilja til Bretlands og eiga eftir að lokka til sín bankastarfsmenn frá Bretlandi ákveði Bretar að draga sig úr Evrópusambandinu. Þetta segir efnahagsráðherra Frakklands í viðtali við Financial Times í dag.

Emmanuel Macron segir að með útgöngu Breta úr ESB, sem Bretar kalla Brexit, gætu þeir átt á hættu að mega ekki stunda landamæraeftirlit Frakklandsmegin við Ermarsund. Þá telur hann að Frakkar eigi eftir að freista þess að fá til sín fjármálafyrirtæki og starfsmenn þeirra, þar sem Bretar verði ekki lengur hluti af opnum fjármálamarkaði ESB með útgöngunni.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði í febrúar að með útgöngu úr ESB væri ekkert sem stöðvaði þúsundir flóttamanna í að koma yfir landamærin frá Calais á einni nóttu. Þeir sem eru hlynntir útgöngunni segja Cameron fara fram með hræðsluáróður.

Þúsundir flóttamanna sem flúið hafa stríð í Mið-Austurlöndum og Afríku halda við í Calais og freista þess að komast yfir til Englands. Hluti tjaldbúða þeirra, sem kallaðar eru frumskógurinn, var jafnaður við jörðu af frönskum stjórnvöldum í byrjun vikunnar.

Bretar hafa fengið að hafa landamæraeftirlit í útjaðri tjaldbúðanna. Samningur þess efnis er við það að renna út og fer Cameron á fund Francois Hollande, forseta Frakklands, þar sem hann leggur áherslu á framlengingu samningsins. Cameron telur það lykilatriði í baráttu sinni fyrir áframhaldandi veru Bretlands í ESB.