Framtíð Fréttatímans óljós

14.02.2017 - 14:19
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Útgefandi Fréttatímans segir framtíð blaðsins óljósa og hefur leitað stuðnings almennings við útgáfu blaðsins. Þetta er þriðji fjölmiðillinn á skömmum tíma sem leitar til almennings eftir fjárstuðningi.

Fréttatíminn hefur hafið söfnun stofnfjárframlaga vegna útgáfu blaðsins. Þetta er gert undir formerkjum Frjálsrar fjölmiðlunar, sem að sögn hefur það markmið að verja frjálsa fjölmiðlun á Íslandi og styðja fjölmiðlun í almannaþágu. Í stöðuuppfærslu á Facebook segir Gunnar Smári Egilsson, annar ritstjóra Fréttatímans og útgefandi blaðsins, að þegar hafi meira en 500 manns skráð sig sem stofnfélaga að Frjálsri fjölmiðlun. Hann segir endurskipulagningu á útgáfu Fréttatímans þó ekki lokið og óvíst hver framtíð hans verður. Þangað til verði framlög ekki innheimt frá stofnfélögum. 

Á heimasíðu Frjálsrar fjölmiðlunar er skotið fast á aðra miðla og fullyrt að frjáls fjölmiðlun hafi látið undan á Íslandi. Eftir hrun hafi nær öll fjárfesting í fjölmiðlum á Íslandi verið til að verja sérhagsmuni. „Allir stærstu miðlarnir utan Ríkisvarpsins eru í eigu sérhagsmunahópa eða einstaklinga sem hafa mikinn hag af því að móta samfélagsumræðuna,“ segir þar. Aftur á móti sé Fréttatíminn óháður og frjáls fjölmiðill sem taki sér stöðu með almannahagsmunum gegn sérhagsmunum. Þess vegna óski Fréttatíminn eftir aðstoð almennings „við að byggja upp öflugan almennan fjölmiðil sem veitir almannaþjónustu og sem hefur næga útbreiðslu til að geta orðið grunnur að breiðu samtali um hvert samfélag okkar eigi að stefna.“

Nýir eig­endur keyptu allt hlutafé í móð­ur­fé­lagi Frétta­tím­ans í nóv­em­ber 2015. Gunnar Smári leiddi þann hóp en með voru fjár­­­fest­­arnir Árni Hauks­­son, Hallbjörn Karls­­son og Sig­­urður Gísli Pálma­­son, auk Valdi­mars Birg­is­sonar, sem var í fyrri eig­enda­hópn­um. Til­kynnt var í síð­asta mán­uði að Árni og Hallbjörn hefðu selt sinn hlut í útgáfu­fé­lag­inu til ann­arra hlut­hafa og eru því hlut­haf­arnir þrír; Gunnar Smári, Sig­urður Gísli og Valdi­mar. 

Fréttatíminn er langt í frá fyrsti fjölmiðillinn sem leitar eftir fjárstuðningi almennings. Stundin stóð fyrir hópfjármögnun til stofnunar fjölmiðilsins á Karolina Fund, og safnaði meira en sex milljónum króna í byrjun árs 2015, í formi áskrifta. Nú á dögunum sendi Stundin bréf til áskrifenda og óskaði eftir styrktarframlögum samhliða áskriftarverðinu. Reykjavík Media safnaði um fjórtán milljónum króna í fyrra, og var markmiðið að sögn að reka frjálsan, frían fréttamiðil, sem leggur áherslu á „harða óháða rannsóknarblaðamennsku.“ 

Illugi Gunnarsson, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, skipaði nefnd til að gera tillögur um breytingar á lögum eða aðrar nauðsynlegar aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi og tryggja að hér á landi fái þrifist fjölbreyttur markaður frjálsra fjölmiðla. Nefndin var skipuð í framhaldi af því að fulltrúar einkarekinna fjölmiðla vöktu athygli stjórnvalda á erfiðleikum sem blasi við í rekstri þeirra og skoruðu á stjórnvöld að gera breytingar á íslenskri löggjöf til þess að jafna samkeppnisstöðu félaga á íslenskum fjölmiðlamarkaði.