Framsóknarmenn kjósa formann í skugga átaka

02.10.2016 - 08:57
Mynd með færslu
Flokksþing Framsóknarflokksins heldur áfram í dag í Háskólabíó og verður formaður flokksins kjörinn í dag. Bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, og Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi forsætisráðherra, sækjast eftir formennsku.

Samkvæmt dagskrá flokksþings fer kosning um formann, varaformann, ritara, laganefnd og siðanefnd fram á milli klukkan hálf tólf og hálf eitt í dag. Gert er ráð fyrir framboðsræðum í dagskrá. Fylgjast má með kosningunni í beinni útsendingu hér á vefnum. 

Flokksþingið einkenndist í gær af átökum en Sigurður Ingi skaut fast í ræðu sinni á Sigmund Davíð. Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður flokksins, lét þung orð falla í garð Sigmundar í ræðu sinni. Þar sagði hann lítið hafa farið fyrir sáttavilja og auðmýkt á fundi framkvæmdastjórnar flokksins í fyrradag. Sigmundur hafi ekki viljað ræða neinar breytingar á dagskrá flokksþingsins og hafi staðið upp og yfirgefið fundinn.

Sigmundur sagði síðar um daginn að lýsing Ásmundar af fundinum hafi verið ósönn. Ásmundur fullyrti að þeir sem voru á fundinum geti staðfest frásögn sína. Framkvæmdastjórn flokksins skipa Sigmundur Davíð, Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og varaformaður flokksins, Eygló Harðardóttir, Ásmundur Einar, Páll Marís Pálsson og Anna Kolbrún Árnadóttir.

Eyjan hafði eftir Önnu Kolbrún, fulltrúi Landssambands Framsóknarkvenna, í gær að lýsing Ásmundar á fundinum ætti ekki við rök að styðjast. Hún sagði að Sigmundur Davíð hafi leitað sátta á fundinum og því hafi ráðherrar fengið að halda ræður á flokksþinginu í gær. Anna Kolbrún sagðist vera ósátt við að Ásmundur Einar hafi rofið trúnað um fundinn með orðum sínum.