Framsókn og Píratar bæta ögn við fylgi

22.12.2013 - 19:05
Mynd með færslu
Skuldaaðgerðirnar sem kynntar voru í síðasta mánuði auka vinsældir ríkisstjórnarinnar lítið ef marka má nýjan þjóðarpúls Capacent Gallup. Píratar og Framsóknarflokkur bæta aðeins við sig, en Sjálfstæðisflokkur og Samfylking tapa fylgi.

Könnunin, sem er fyrsti þjóðarpúlsinn frá því að aðgerðirnar voru kynntar 30. nóvember, var gerð dagana 1. til 19. desember. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 25% fylgi, tveimur prósentustigum minna en í síðustu könnun, sem gerð var í síðasta mánuði.

Framsóknarflokkurinn er með rúmlega 16% fylgi, bætir við sig frá síðustu könnun, en er nokkuð langt frá fylginu í kosningunum. Samfylkingin er með 15% og tapar fylgi milli mánaða og Vinstri grænir er með rúm 13%. Björt framtíð er jafn stór VG, en Píratar bæta við sig tveimur prósentustigum á milli kannana og mælast nú með 11% fylgi.

Sé litið á fylgi ríkisstjórnarinnar kemur í ljós að 48% styðja hana, þremur prósentustigum fleiri en í síðasta mánuði, en mun færri en þegar hún tók við völdum. Þegar stjórnarflokkarnir mynduðu ríkisstjórnina var samanlagt fylgi þeirra 47%, en mælist nú 42%.

Úrtak könnunarinnar var rúmlega 4.400 manns og svarhlutfallið tæplega 61%. Af þeim tóku 80% afstöðu, 12% neituðu að svara eða tóku ekki afstöðu og 8% sögðust ætla að skila auðu eða kjósa ekki.