Framlengja gæsluvarðhald vegna mansals í Vík

04.03.2016 - 17:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglan á Suðurlandi hefur farið fram á framlengingu gæsluvarðhalds yfir manni frá Srí Lanka sem grunaður er um að hafa haldið tveimur konum í vinnuþrælkun í Vík í Mýrdal. Þetta staðfestir Þorgrímur Óli Guðmundsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. Maðurinn var handtekinn í umfangsmikilli aðgerð lögreglu þann 18. febrúar.

Þorgrímur Óli segir að enn sé beðið eftir svari frá dómara en fyrri gæsluvarðhaldsúrskurður rann út klukkan fjögur í dag. Maðurinn er enn í haldi þrátt fyrir það en Þorgrímur Óli reiknar með að dómari hafi tekið sér frest í málinu. Hann geti ekki staðfest það að svo stöddu þar sem ekki hafi fengist staðfesting. Maðurinn sé þó áfram í haldi.

Maðurinn er grunaður um mansal þar sem hann hélt konunum tveimur í vinnuþrælkun í dimmum kjallara í húsi sínu í Vík. Lögregla hafði áður haft afskipti af manninum. Lögreglan fór á saumastofu hans skömmu fyrir áramót að kröfu Verkalýðsfélags Suðurlands vegna gruns um að hann hefði í vinnu starfsfólk sem ekki hefði atvinnuleyfi. Því starfsfólki var vísað úr landi.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur maðurinn einnig verið úrskurðaður tvívegis í nálgunarbann gagnvart eiginkonu sinni vegna heimilisofbeldis. 

Uppfært 17.57: Í tilkynningu lögreglu kemur fram gæsluvarðhald yfir manninum hafi verið framlengt um fjórar vikur.