Framfærsluviðmið gætu lækkað enn frekar

30.04.2016 - 12:02
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Íslenskir námsmenn í Slóvakíu frá 107 þúsund krónur á mánuði í framfærslu á næsta skólaári, samkvæmt nýjum úthlutunarreglum LÍN. Framfærsluviðmið í Slóvakíu er þó mun lægra og getur því lækkað umtalsvert á næstu árum, segir framkvæmdastjóri ráðgjafafyrirtækisins Analytica.

Lán til íslenskra námsmanna erlendis lækka um allt að 20% á næsta skólaári. Þetta kemur hvað harðast niður á nemendum í Slóvakíu og Ungverjalandi. Þar er mat LÍN að mestu muni á framfærsluþörf, og lánum til framfærslu. 

LÍN styðst meðal annars við skýrslu sem Analytica vann fyrir LÍN í ársbyrjun 2015. Samtök íslenskra námsmanna erlendis, SÍNE, gagnrýna skýrsluna og segja hana byggjst á hæpnum og villandi forsendum. Varhugavert sé að styðjast við vefinn Numbeo.com, gagnagrunn sem þar sem flók setur sjálft inn upplýsingar sem viðkoma framfærslu. Framfærsluviðmið sem eru gefin upp á heimasíðum einstakra skóla eru einnig gagnrýnd.

Nemendur óttast framtíðina

„Þeir gefa upp kostnað við að lifa samkvæmt þeirra upplýsingum og við vitum ekki hvort þetta séu nýjustu upplýsingar. Til dæmis komst í ljós að læknanemi í Slóvakíu fór til skólans og spurði af hverju upphæðirnar væru svona lágar og þeir könnuðust ekki við upphæðirnar sem að Analytica var að styðjast við og vildu koma nýjum upplýsingum á framfæri við LÍN en það var ekki tekið til greina,“ segir Hjördís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SÍNE. 

Hún segir SÍNE hafa fengið mikil viðbrögð frá nemendum í Ungverjalandi og Slóvakíu síðustu daga, og þeir séu uggandi yfir þessum fréttum. Hún óttast að nemendur muni hrökklast úr námi vegna þessa, og margir taki nú þegar neyslulán til að framfleyta sér. 

Stuðst við fleiri þætti

Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri Analytica, segir að stuðst hafi verið við mun fleiri þætti við útreikninganna. Til dæmis tölur frá Hagstofu Slóvakíu og velferðarráðuneyti landsins.

„Í rauninni er það þannig að allar þessar upplýsingar benda til þess að við séum nokkurn veginn með þetta á réttu róli,“ segir Yngvi.

Lifað á 54 þúsund krónum á mánuði?

Fjöldi íslenskra nema er við nám í læknisfræði í Slóvakíu og samkvæmt nýjum úthlutunarreglum fá þeir 770 evrur á mánuði, eða um 107 þúsund krónur.

Yngvi segir að samkvæmt útreikningum Analytica hafi framfærsluviðmið í Slóvakíu þó verið mun lægra, eða 388 evrur - sem jafngildir um 54 þúsund krónum. Samkvæmt útreikningum Analytica hefði því verið hægt að rökstyðja framfærslulán upp á 388 evrur.

„Já og væntanlega má gera ráð fyrir því ef fer fram svo horfir má gera ráð fyrir því að framfærslan muni lækka mun frekar,“ segir Yngvi.