Frakkar vildu halda áhrifum í N-Afríku

11.01.2016 - 03:57
epa04669560  Former French president Nicolas Sarkozy arrives for a meeting of the European People's Party (EPP) ahead to European Heads of states and government summit  in Brussels, Belgium, 19 March 2015.  EPA/OLIVIER HOSLET
Nicolas Sarkozy vildi að Líbíu-stríðið bætti ímynd sína í heimalandinu.  Mynd: EPA
Áhyggjur Frakka af því að missa völd í norðurhluta Afríku voru helsta ástæða þess að þeir studdu innrás NATO í Líbíu árið 2011. Auk þess átti innrásin að verða til þess að bæta ímynd Nicolas Sarkozy, þáverandi forseta. Þetta kemur fram í einum af tölvupóstum Hillary Clinton sem gerðir voru opinberir um áramótin.

Yfir 3.000 tölvupóstar frá ráðherratíð Hillary Clinton í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna voru gerðir opinberir á gamlárskvöld. Þar á meðal er fjöldi pósta sem vefmiðillinn Foreign Policy Journal tók saman frá Simon Blumentahl, ráðgjafa Clinton, sem tengjast aðgerðum NATO í Líbíu árið 2011. Í einum þeirra sést að vitneskja var um stríðsglæpi sem framdir voru af uppreisnarsveitum studdum af NATO. Þar kemur einnig fram að breskar, franskar og egypskar sérsveitir hafi þjálfað líbíska vígamenn úr samtökum sem tengdust Al-Kaída.

Frakkar vildu halda áhrifum

Frakkar áttu stóran þátt í að ráðist var inn í Líbíu. Í pósti frá Blumentahl segir að Frakkar hafi veitt hópi uppreisnarmanna fjárhagslega aðstoð og sveitinni hafi verið lofað hergögnum og þjálfun. Þar koma einnig fram ástæður þess að Frökkum var svo í mun að ráðast steypa Moammar Gaddafi af stóli sem leiðtoga Líbíu.

Blumentahl telur upp fimm ástæður. Frakkar vildu stærri hlut í olíuframleiðslu Líbíu, þeir vildu auka áhrif sín í Norður-Afríku, Sarkozy vildi styrkja stöðu sína heima fyrir og þeir vildu sýna hernaðarmátt sinn. Auk þess höfðu þeir miklar áhyggjur af því að Gaddafi ætlaði að minnka áhrif Frakka með því að koma á fót eigin gjaldmiðli, sem yrði notaður víðar í álfunni, til þess að koma í stað franska frankans sem er útbreiddur í Afríku. Gaddafi lá á gríðarlegum gull- og silfurforða sem hann ætlaði að nota til þess að styðja við gjaldmiðilinn. 

Áróður um hópnauðganir

Sögur af því að herir Gaddafis beittu fjöldanauðgunum fóru víða og tók Clinton þátt í því að breiða þær út. Í pósti til Clinton segir Blumenthal að aðeins sé um sögusagnir að ræða og hann hafi engar sannanir fyrir þessu. Mannréttindasamtökin Amnesty gerðu eigin rannsókn á þessu og gátu hvergi fundið sannanir fyrir fjöldanauðgununum. Þvert á móti leit allt út fyrir að uppreisnarsveitir í Benghazi hefðu búið orðróminn til og falsað sannanir.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV