Frábær söngur í sterkri heildrænni uppfærslu

„Það er afrek út af fyrir sig að hámarka þennan sal eins og gert var þarna,“ segir Helgi Jónsson tónlistarfræðingur um Don Giovanni eftir Mozart, sem Íslenska óperan frumsýndi í Hörpu á laugardag.

Don Giovanni fjallar um samnefndan flagara, sem skeytir engu um tilfinningar þeirra kvenna sem hann kynnist og dregur á tálar. Helgi Jónsson tónlistarfræðingur segir Don Giovanni erfittt verk í uppfærslu og kalli á fínt jafnvægi milli gamans og harms. Íslensku óperunni hafi tekist vel upp í þetta sinn, það hafi verið gott jafnvægi milli hljómsveitar og söngvara og mikið flæði í tónlistinni. Einfaldleiki í sviðshönnun og leikstjórn hafi gengið vel upp. 

„Oddur Arnþór Jónssson söng af fádæma áreynsluleysi og gerði þetta frábærlega. Karakterinn er vel hannaður, maður hefur samúð með honum en skynjar hvernig það molnar undan tilveru hans,“ segir Helgi um titilhlutverkið. Það sé þó ósanngjarnt að taka einn söngvara út fyrir sviga. Don Giovanni reiði sig á átta söngvara sem bera sýninguna uppi og þeir hafi allir staðið sig framúrskarandi vel með tilheyrandi gæsahúðaaríum. 

Horfa má á gagnrýni Helga hér að ofan. 

 

Mynd með færslu
Bergsteinn Sigurðsson
dagskrárgerðarmaður
Menningin
Kastljós