Fótgangandi um Oddskarðsgöng

25.03.2017 - 11:46
Mynd með færslu
 Mynd: Ásdís Ósk Valsdóttir
Fólk á leið til og frá vinnu og farþegar á leið í flug, þurftu að fara fótgangandi um Oddskarðsgöng í morgun. Göngin voru lokuð bílaumferð vegna þess að hurð á göngunum hafði bilað.

Tvær rútur og nokkrir fólksbílar voru við göngin í morgun. Um göngin liggur vegurinn á Norðfjörð og til Neskaupstaðar frá Eskifirði. Í morgun voru tvær rútur sitt hvorum megin við göngin, með starfsmenn Alcoa á Reyðarfirði. Önnur rútan var á leið á Neskaupstað með starfsmenn sem höfðu verið á næturvakt. Hin var á leið frá Neskaupstað með fólk sem var að fara til vinnu.

Díana Mjöll Sveindóttir hjá Tanni Travel, sem á rúturnar, segir að það hafi einfaldlega verið brugðið var á það ráð að ganga í gegnum göngin og skipta um rútur.

Þá voru þarna um 12 manns sem voru á leið frá Neskaupstað í flug á Egilsstöðum. Fólkið fékk far áleiðis með rútunni, eftir að hafa skilið við bílana Norðfjarðarmegin ganganna og farið fótgangandi um Oddskarðsgöng.

Búið er að gera við hurðina og voru göngin opnuð aftur á ellefta tímanum.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV