Forstjóri HSU hittir Rangæinga

06.01.2016 - 17:15
Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson  -  RÚV
Opinn íbúafundur með forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands verður haldinn á Hvolsvelli á mánudaginn kemur. Sveitarstjórn Rangárþings eystra óskaði eftir fundinum um miðjan nóvember. Íbúum sveitarfélagsins er heitt í hamsi eftir að stjórn heilbrigðisstofnunarinnar ákvað að heilsugæslustöðin á Hvolsvelli yrði aðeins opin þrjá daga í viku.

Heilsugæslustöðvunum á Hellu og Hvolsvelli er til hagræðingar lokað til skiptis á sumrin. Í sumar var lokað á Hvolsvelli. Stjórn HSU frestaði því að opna eftir sumarlokun frá 1. september til 16. nóvember og síðan hefur aðeins verið opið þrjá daga í viku. Nú stendur yfir undirskriftasöfnun á heimasíðu sveitarfélagsins, hvolsvollur.is, þar sem mótmælt er skerðingu á þjónustu heilsugæslustöðvarinnar. 

Samúel Örn Erlingsson
Fréttastofa RÚV