Forsetinn á að vera fyrirliði

Frambjóðandinn Halla Tómasdóttir telur að forseti Íslands eigi að vera fyrirliði. „Við þurfum fyrirliða, manneskju sem virkjar aðra með sér, hjálpar okkur að mála framtíðarsýn, leggur grunngildi, heldur þeim á loft og virkjar sem flesta í að skapa það samfélag sem við viljum. Þannig forseti myndi ég vilja vera og þannig forseta tel ég að við þurfum á þessum tímapunkti. Ekki einhvern sem veit allt, kann allt, er hetja, hefur sig yfir aðra, er vitrari eða betri."

Halla Tómasdóttir sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 að mikilvægt sé að byggja upp traust í samfélaginu, draga fram það mjúka í samfélaginu og innleiða ákveðin gildi: Heiðarleika, réttlæti, jafnrétti og virðingu. „Það er verkið sem ég sé að þarf að vinna: að sætta, sameina - og innleiða þessi gildi í okkar samfélag. Það er samfélagið sem Íslendingar vilja og eiga skilið.“ Halla segist ekki hafa heyrt talað um þá sýn að allir í samfélaginu skipti máli og séu verðmætir. Það skipti mikilu máli að forsetinn leiði þessi gildi til vegs.

Á mánudaginn 30. maí, kemur Elísabet Jökulsdóttir á Morgunvaktina.