Forsetakosningar standa enn í Úganda

19.02.2016 - 07:58
Nokkrir tugir kjörstaða í Úganda eru enn opnir í dag, þótt forsetakosningum hafi átt að ljúka í gær. Fjöldi fólks varð frá að hverfa í gær þar sem kjörgögn vantaði og kjörkassar höfðu jafnvel ekki borist.

Kjörstaðirnir sem vera opnir í dag eru í höfuðborginni Kampala og nágrenni. Þar efndu reiðir kjósendur til mótmæla þegar þeir gátu ekki greitt atkvæði. Lögregla beitti táragasi til að sundra mannfjöldanum. Einn frambjóðandi var handtekinn, en sleppt skömmu síðar.

Fastlega er búist við því að Yoweri Museveni forseti verði endurkörinn. Hann hefur setið í þrjá áratugi á forsetastóli og hefur að líkindum sitt fimmta kjörtímabil að kosningum loknum.  Búist er við fyrstu tíðindum af talningu atkvæða á morgun.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV