Fórnarlömbin frá 24 löndum

18.08.2017 - 06:34
epa06148681 Mossos d'Esquadra Police officers and emergency service workers move an injured after a van crashes into pedestrians in Las Ramblas, downtown Barcelona, Spain, 17 August 2017. According to initial reports a van crashed into a crowd in
 Mynd: EPA  -  EFE
Bílstjórinn sem ók sendibíl inn á Römbluna í Barselóna í gær er enn ófundinn. Lögregla handtók tvo menn í borginni í gær í tengslum við árásina. Fimm grunaðir hryðjuverkamenn voru skotnir til bana af lögreglu í borginni Cambrils í nótt, um 120 kílómetra suður af Barselóna.

13 eru látnir og um 100 særðir, þar af margir alvarlega, eftir að sendiferðabíl var ekið á gangandi vegfarendur á Römblunni í miðborg Barselóna í gær. Rannsókn lögreglu vegna hryðjuverkanna í gær teygir sig til þriggja borga. Gassprenging varð í íbúðarhúsi í borginni Alcanar í gærmorgun. Einn lést af völdum sprengingarinnar og minnst einn slasaðist. Borgin er um 200 kílómetrum frá Barselóna. Talið er að þar hafi misgjörðarmenn verið að búa til sprengjur þegar eitthvað fór úrskeiðis.

Síðar um daginn ók maður sendiferðabíl nærri kílómetra um Römbluna og yfir þá sem fyrir urðu. Fólk flúði í ofboði og fékk að dvelja inni í verslunum, veitingastöðum og öðrum stöðum sem gátu hýst það. Ökumaðurinn hljóp út úr bílnum og flúði vettvang. Talið er að annar sendiferðabíll hafi verið notaður við flóttann. Hann fannst yfirgefinn í borginni Vic, um 80 kílómetra frá Barselóna.

Í gærkvöld greindi spænska lögreglan svo frá aðgerð í tengslum við hryðjuverk í borginni Cambrils. Þar var bíl ekið á gangandi vegfarendur, með þeim afleiðingum að sex almennir borgara særðust, þar af tveir alvarlega. Lögregla stöðvaði för bílsins og skutu þá fimm sem voru inni í honum til bana. Að sögn lögreglu báru mennirnir eitthvað sem virtist vera sprengjubelti.
Að sögn spænskra yfirvalda eru fórnarlömb árásanna af 24 þjóðernum.