Formaður bæjarráðs telur nóg komið

11.08.2017 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage  -  RÚV
Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa óskað eftir fundi með Umhverfisstofnun vegna ítrekaðra tilvika þar sem mengun berst frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Formaður bæjarráðs segir nóg komið. Íbúi segir réttara að verksmiðjan víki en ekki íbúarnir.

Sterk lykt hefur borist frá verksmiðjunni síðan í gær og hafa borist um 40 kvartanir til Umhverfisstofnunar. Bilun varð í rafskauti og því þurfti að slökkva á ofninum. Þegar hitastig hans er að lækkað berst mest lyktamengun. „Mér lýst hræðilega á stöðuna og er virkilega vonsvikinn yfir henni. Ég tel að ef kísilverið getur ekki starfað án þess að skapa þessa lykt og mengun þá eigi að loka því strax,“ segir Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar. Hann kveðst búinn að missa þolinmæði gagnvart starfseminni sem hófst í nóvember síðastliðnum. „Maður heyrir sögur af íbúum sem eru veikir, geta ekki opnað glugga. Ég hef heyrt af íbúum sem hafa selt íbúð í nágrenni við verksmiðjuna. Það verður bara að loka þessu úr því að þeim tekst ekki að ná tökum á verkefninu,“ segir hann.

Telur stöðuna sorglega

Friðjón sendi í morgun formlega beiðni til Umhverfisstofnunar um fund um stöðu mála. Hann segir nóg komið, staðan sé sorgleg og að heilsa íbúa verði að vera í fyrirrúmi. „Það gengur ekki lengur að íbúar finni stöðugt fyrir þessari lykt og mengun sem fylgir. Það bara gengur ekki. Þess vegna munum við taka mjög djúpt í árinni við þessa aðila.“

Ekki megi blanda saman heilsu íbúa og fjárhag bæjarins

Reykjanesbær hefur átt við fjárhagserfiðleika að etja undanfarin ár og ljóst er að bæjarfélagið yrði af tekjum, komi til lokunar á verksmiðjunni. „Auðvitað hefur maður alltaf áhyggjur af því þegar tekjur minnka. Þessu tvennu má ekki blanda saman. Heilsa íbúa er alltaf númer eitt. Hitt er bara afleiðing og við tökum á því.“ 

Fordæmalaust eftirlit

Áætlað var að kveikja aftur á ofninum klukkan 9:30 i morgun, að sögn Einars Halldórssonar, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun. Hann segir megna lykt hafa verið í nágrenni verksmiðjunnar í morgun. Unnið hefur verið að verkfræðilegri úttekt á starfseminni eftir að eldur kom þar upp í apríl. Þá var starfseminni hætt. Hún hófst aftur 21. maí undir sérstöku eftirliti Umhverfisstofnunar, sem hefur aldrei haft eins veigamikið eftirlit með neinu fyrirtæki. Einar segir ljóst að ekki gangi vel að komast fyrir vandræði í starfseminni. „Það virðist alltaf vera eitthvað bras og tilheyrandi vandræði,“ segir hann. 

Ekki er fyllilega ljóst hvaða efni berast frá verksmiðjunni og hafa mælingar á því staðið yfir í sumar á vegum Norsku loftrannsóknarstofnuninnar NILO. Hjá Umhverfisstofnun er í athugun að flýta frekari mælingum á útblæstri.

Verksmiðjan víki en ekki íbúar

Ekki var hægt að vera úti við í Vallahverfinu í Reykjanesbæ í gær, að sögn Andra Freys Stefánssonar, íbúa þar. Hann kom heim klukkan 19:00, þá var áttin á þann veg að mengunin fór yfir hverfið sem er í næsta nágrenni við verksmiðjuna. „Þetta var mjög slæmt. Ég er kominn með alveg upp í kok af þessu ástandi. Mér líður hræðilega yfir því að hafa þessa verksmiðju ofan í mér,“ segir hann. Andri á börn og hefur áhyggjur af því að búa á þessum stað. „Mér finnst samt réttara að verksmiðjan víki en ég,“ segir hann.

Fréttin hefur verið uppfærð.