Fólki fjölgar á norðanverðum Vestfjörðum

16.08.2017 - 10:19
Það þarf ekki að vinna 120 prósent vinnu til að geta safnað fyrir íbúð segir ung kona sem er nýflutt á Ísafjörð. Eftir áratugalanga fólksfækkun fjölgar fólki á ný á norðanverðum Vestfjörðum.

Einfaldara og ódýrara líf

Marta er að gera smíðastofuna í grunnskólanum á Ísafirði tilbúna fyrir veturinn en þar hefur ekki verið starfandi formlegur smíðakennari í nokkur ár. Marta flutti fyrst til Ísafjarðar frá Kópavogi af forvitni þegar hún var tvítug en er nú að flytja aftur vestur ásamt unnusta eftir sex ára búsetu erlendis. „Við sáum bara ekki fram á að geta gert allt sem okkur langaði að gera í Reykjavík. Og sáum bara miklu fleiri kosti í því að koma hingað á Ísafjörð,“ segir Marta Sif Ólafsdóttir, smíðakennari og vöruhönnuður.

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir  -  RÚV
Marta Sif Ólafsdóttir, smíðakennari og vöruhönnuður

Ekki áratugi að safna fyrir íbúð

Marta ætlar að starfa sem smíðakennari til móts við að starfa sjálfstætt við hönnun. Hún segir lífið einfaldara á Ísafirði, hægt að ganga allt og þótt erfitt hafi verið að finna húsnæði þá er markaðurinn ódýrari en í Reykjavík. „Við einmitt sáum fram á það að geta kannski keypt okkur eitthvað eftir 2-3 ár en sáum ekki fram á það að geta gert það næstu áratugina í Reykjavík. Sérstaklega því við viljum ekki þurfa að vinna 120 prósent vinnu til að safna okkur fyrir íbúð heldur viljum við gera það sem okkur finnst skemmtilegt,“ segir Marta.

Fólki fækkað mikið á Vestfjörðum

Öldum saman bjuggu um 15 prósent landsmanna á Vestfjörðum. Eftir miðja 20. öldina fór fólki að fækka þar þegar sveitir tæmdust og samþjöppun varð í sjávarútvegi. Nú búa um 2 prósent landsmanna á Vestfjörðum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Fólki tók hins vegar að fjölga með tilkomu bættra atvinnutækifæra á sunnanverðum Vestfjörðum upp úr 2011 og miðað við ársfjórðungstölur Hagstofunnar hefur íbúum nú einnig fjölgað á norðanverðum Vestfjörðum eftir áratugalanga fólksfækkun, eins og greint var frá á bb.is. Miðað við annan ársfjórðung hefur fólki fjölgað um 60 í Ísafjarðarbæ og um 30 manns í Bolungarvík, miðað við sama tíma í fyrra.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hefur helst áhyggjur af samgöngum

Marta er ánægð með flutningana en hefur helst áhyggjur af samgöngum og að flug falli niður trekk í trekk þegar hún þarf að komast snarlega suður: „Að geta þá ekkert endilega stokkið.“

Marta efast ekki um að aðrir í svipaðri stöðu sjái hag í því að flytja á stað eins og Ísafjörð: „Allt sem ég þarf, allar grunnþarfir, mikið félagslíf og nóg að gera í menningunni. Allt svoleiðis er uppfyllt og ekkert sem að mig vantar.“