Fólk deyr enn hungurdauða í Madaya

31.01.2016 - 04:27
epa05101573 A general view for the besieged town of Madaya, in the countryside of Damascus, Syria, 14 January 2016. Convoys of humanitarian supplies, the second in a week, were on their way to three besieged Syrian towns. Some 44 trucks will enter the
Madaya, einn þeirra umsetnu bæja sem verið er að flytja fólk frá.  Mynd: EPA
16 hafa dáið úr hungri í sýrlenska bænum Madaya frá því að hjálpargögn bárust þangað síðast, fyrr í þessum mánuði. 33 til viðbótar eru við dauðans dyr vegna hungurs og á fjórða hundrað þjást af alvarlegum næringarskorti. Þetta upplýsa hjálparsamtökin Læknar án landamæra. Brice de la Vingne, aðgerðastjóri hjá samtökunum, segir ástandið algjörlega óásættanlegt. Flytja hefði þurft sárveikt fólk frá bænum fyrir mörgum vikum, en það hefði ekki verið leyft.

Sýrlenski stjórnarherinn og liðsmenn Hezbollah-hreyfingarinnar hafa setið um Madaya síðan í júlí á síðasta ári, en bærinn, sem er nærri líbönsku landamærunum, er á valdi uppreisnarmanna. Læknar án landamæra greindu frá því nýlega að rúmlega 30 hefðu dáið úr hungri í Madaya síðla árs 2015. Umsátursliðið hleypti tveimur vöruflutningabílum, hlöðnum mat og lyfjum, til bæjarins þann 11. janúar, eftir margra mánaða umsátur, og aftur þann 14. Það dugði þó skammt, en um 40.000 manns eru innilokuð í borginni.

Talið er að allt að tvær milljónir Sýrlendinga búi við umsátursástand, ýmist af hálfu stjórnarhersins og bandamanna þeirra, eða hinna ýmsu uppreisnarhópa. Læknar án landamæra segja umsáturslið beggja deiluaðila iðulega koma í veg fyrir brottflutning sjúkra og aðflutning vista, lyfja og annarrar lækningarvöru. Afleiðingin sé sú að hjúkrunarlið á þessum svæðum ráði einfaldlega ekki við þann gríðarlega vanda sem við þeim blasi. Í tilkynningu frá samtökunum segir að ástandið í Madaya sé enn verra en víðast hvar annars staðar, þar sem engir læknar séu í bænum.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur lýst því yfir að það sé stríðsglæpur að beita hungri sem vopni. Allir deiluaðilar geri það hins vegar, einnig sýrlenska stjórnin, þótt það sé frumskylda hennar að vernda borgara sína, og þrátt fyrir að það sé skýrt brot á alþjóðalögum, sagði Ban, skömmu eftir að seinni hjálpargagnasendingin komst loks á áfangastað í Madaya um miðjan mánuðinn.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV