Földu fíkniefni í leðursófa og leikfangabíl

19.06.2017 - 18:51
Mynd með færslu
 Mynd: CC  -  Wikimedia Commons
Héraðssaksóknari hefur ákært fjóra menn á aldrinum 21 til 36 ára fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot framin fyrir tveimur árum. Tveir þeirra eru meðal annars ákærðir fyrir að framleiða e-töflur úr e-töfludufti með þartilgerðri töflugerðarvél sem fannst í geymslu hjá Geymslum.is.

Málið er í meginatriðum tvískipt: annars vegar snýst það um innflutning á þremur kílóum af e-töfludufti (MDMA) frá Hollandi og hins vegar um rúmlega 3.000 e-töflur sem fundust í hjólageymslu í Garðabæ. Einn fjórmenninganna, þrítugur Garðbæingur, er ákærður fyrir að standa á bak við hvort tveggja.

Keypti hvítan leðursófa í Oosterhout

Annars vegar er hann ákærður ásamt 36 ára Reykvíkingi fyrir að flytja til landsins þrjú kíló af e-töfludufti með flutningaskipinu Selfossi. Efnin voru falin í hvítum leðursófa sem sá reykvíski keypti í bænum Oosterhout í Hollandi 6. júní 2015.

Sófinn kom til Íslands 29. júní og lögreglan fann svo efnin í honum daginn eftir. Þriðji maðurinn, 21 árs Reykvíkingur, er ákærður fyrir að hafa útvegað mann til að skrá sem móttakanda sendingarinnar. Gegn því fékk hann fellda niður skuld sína við höfuðpaur málsins.
 

Getur pressað 5.400 töflur á klukkustund

Sama dag og efnin fundust í sófanum, 30. júní 2015, leitaði lögregla á heimili Garðbæingsins og fann þar 3.070 e-töflur faldar í leikfangabíl í reiðhjólageymslu. Viku síðar, 7. júlí, fannst töflugerðarvél af gerðinni TDP-5 í við Fiskislóð, þar sem fyrirtækið Geymslur.is leigir út litlar geymslur.

Á vefsíðu framleiðanda töflugerðarvélarinnar kemur fram að vél af þessari gerð kosti 1.900 pund, jafnvirði um 250.000 króna á verðlagi dagsins í dag, og að vélin geti pressað 5.400 töflur á klukkustund.

Fundu 700.000 króna ætlaðan ágóða af dópsölu

Garðbæingurinn er ákærður ásamt 28 ára Kópavogsbúa fyrir að hafa töflurnar í vörslum sínum, flytja inn töflugerðarvélina í því skyni að framleiða með henni fíkniefni og fyrir að hafa framleitt töflurnar 3.070 í vélinni. Kópavogsbúinn var skráður fyrir geymslunni þar sem vélin fannst, en Garðbæingurinn greiddi leiguna.

Saksóknari gerir kröfu um að fíkniefnin og töflugerðarvélin verði gerð upptæk, eins hvíti leðursófinn, Apple Macbook Air-fartölva, Acer-fartölva, iPhone 6-sími og tæpar 700.000 krónur, sem talið er að séu ágóði af fíkniefnasölu.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV