Fóðra geiturnar á jólatrjám - myndskeið

06.01.2016 - 16:21
Í San Fransisco hafa menn dottið niður á hentuga lausn til að losa sig við jólatrén. Þau eru notuð til að fóðra geitur, sem haldnar eru í borginni. Geiturnar eru að sögn ekki vandlátar á trjátegundir. Þær úða í sig furu jafnt sem greni og þin. Það eina sem þær fúlsa við eru jólatré sem hafa verið úðuð með eldvarnarefnum.

Þetta er annað árið í röð sem borgarbúum er gefinn kostur á að losa sig við jólatrén með því að kasta þeim fyrir geitahjörðina. Úr þeim fá geiturnar aukaskammt af C-vítamíni, auk þess sem innyflin hreinsast af ormum. Í hjörðinni eru um það bil 80 geitur, sem hafa það hlutverk alla jafna að naga kjarr, bergfléttur og annan gróður sem fer að spretta á óæskilegum stöðum.

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV