Flytja þarf hundruð manna frá Madaya

12.01.2016 - 03:26
Erlent · Asía · sýrland
epa05097156 A handout image dated 11 January 2016 made available by the International Committee of the Red Cross, showing a Red Cross aid convoy on its way to the besieged city of Madaya, Syria. A convoy of trucks carrying food and medical aid arrived
 Mynd: EPA  -  ICRC
Flytja verður um 400 manns burt úr bænum Madaya í Sýrlandi og koma þeim undir læknis hendur. Þetta segja starfsmenn Sameinuðu þjóðanna sem fóru þangað með birgðir í fyrsta sinn í marga mánuði. SÞ hafa biðlað til stjórnvalda í Sýrlandi að fólkinu verði flogið frá Madaya. Frá 1. desember hafa hátt í þrjátíu manns dáið úr hungri í bænum að sögn Lækna án landamæra.

Fréttastofa AFP hefur eftir íbúum bæjarins að þeir hafi borðað gras síðustu mánuði og séð sig knúna til þess að drepa ketti sér til matar. Bærinn hefur verið umsetinn hersveitum forsetans, Bashars al-Assads, síðastliðið hálft ár. Ef fólkið verður ekki flutt burt strax í dag verður ástandið enn verra á morgun, að sögn Roman Oyarzun, sendiherraa Spánar hjá Sameinuðu þjóðunum.

Bashar Jaafari, erindreki Sýrlands hjá Sameinuðu þjóðunum, segir fregnir af svelti í Madaya rangar og sakar hryðjuverkamenn innan bæjarins um þjófnað á birgðum.
Sendiherra Bretlands í Sýrlandi sakar stjórn Asads um að láta samborgara sína svelta og hann verði að láta af því. Undir það tekur sendiherra Frakklands og segir að friðarviðræður geti ekki haldið áfram nema betur verði komið fram við sýrlenska borgara.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV