Flutningur hljómsveitar BBC á Geysi Jóns Leifs

15.02.2016 - 15:27
Það gerist ekki oft að verk eftir Jón Leifs, eitt merkasta tónskáld Íslendinga á 20. öld, séu leikin á erlendum vettvangi. Breska útvarpið BBC gekkst fyrir norrænum menningardögum á tónlistar- og menningarrás sinni Radio 3 fyrir áramót, og þar lék Sinfóníuhljómsveit BBC í Wales Geysi eftir Jón, mynd hans í tónum af hinum háleita og ægilega krafti goshversins í Haukadal.

Mánudaginn 15. febrúar kl. 19:00 verða norrænir þematónleikar í Wales á dagskrá í tónleikaþættinum Endurómi úr Evrópu á Rás 1. Hægt er að hlusta á tónleikana í spilaranum hér að ofan.

Endurómur úr Evrópu er á dagskrá öll mánudags-, þriðjudags- og miðvikudagskvöld. Þar eru á boðstólum tónleikahljóðritanir úr fremstu tónleikasölum í heimi með flytjendum í fremstu röð.

Í þættinum 15. febrúar hljómar hljóðritun sem var gerð í Cardiff í Wales 15. desember í vetur. Þar lék Sinfóníuhljómsveit BBC í Wales á tónleikum sem haldnir voru á norrænum þemadögum BBC þar sem norrænar listir voru í forgrunni.

Leikin voru fjögur verk, þrjú af þeim samin um norræn náttúruþemu:

Fyrst Píanókonsert nr. 2 frá 1908 eftir sænska tónskáldið Wilhelm Stenhammar, síðrómantískt verk þar sem ægir saman ýmiss konar áhrifum, allt frá þjóðernisrómantík til Wagners. Einleikari í konsertinum var Norðmaðurinn ungi Christian Ihle Hadland.

Síðan hljómaði Cantus Arcticus frá 1972 eftir Einojuhani Rautavaara, eitt þekktasta samtímatónskáld Finna. Verkið er ómfagur konsert fyrir hljómsveit og fuglahljóð sem Rautavaara hljóðritaði sjálfur.

Þriðja verkið var Geysir, op. 51, eftir Jón Leifs frá árinu 1961. Það gerist ekki oft að útlendir menn taki verk Jóns Leifs til flutnings en kemur þó fyrir. Í hvert sinn er það viðburður, enda er Jón Leifs eitt mikilvægasta tónskáld 20. aldar á Íslandi. Verk Jóns, Geysir, er mynd í tónum af hinum ægilega krafti goshversins í Haukadal.

Lokaverkið var Tapiola eftir Jean Sibelius, tónaljóð frá 1926 um finnska skógarguðinn Tapio og kynngimögnuð heimkynni hans.

B. Tommy Andersson stjórnaði Sinfóníuhljómsveit BBC í Wales á þessum tónleikum.

Umsjónarmaður: Atli Freyr Steinþórsson

Atli Freyr Steinþórsson
dagskrárgerðarmaður
Endurómur úr Evrópu