Flugvirkjar semja, verkfalli aflýst

02.02.2016 - 04:31
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Flugvirkjar hjá Samgöngustofu skrifuðu undir kjarasamning við ríkið á fjórða tímanum í nótt, í húsnæði ríkissáttasemjara. Ótímabundnu verkfalli þeirra, sem hófst þann 11. janúar, hefur því verið aflýst. Birkir Halldórsson, formaður samninganefndar Félags íslenskra flugvirkja, var að vonum ánægður að undirritun lokinni. Sagðist hann fagna því að tekist hefði að landa samningi fyrir þessa félaga Flugvirkjafélagsins eftir 27 ára baráttu, en búið væri að leita eftir samningi fyrir þá síðan 1989.

Engar kröfur voru uppi um launahækkanir, aukin réttindi eða aðrar kjarabætur; eina krafan var löglegur kjarasamningur um þau kjör sem menn nutu fyrir. Aðspurður um hvað menn hefðu þá deilt fram á rauðanótt sagði Birkir nóttina ekki hafa farið í deilur. Hins vegar hefði þurft að fara vel yfir samninginn og ganga frá öllu með sem tryggustum hætti, passa að allt væri á sínum stað og útreikningar réttir. Samningurinn gildir út október 2017.