Flúði með 25 börn til fjalla í flóðinu

18.06.2017 - 15:39
Mynd með færslu
 Mynd: Inunnguaq Hegelund
Hundruð íbúa bæjarins Uummannaq flúðu til fjalla í nótt eftir flóðviðvörun í kjölfar flóðsins í nágrannaþorpinu Nuugaatsiaq þar sem fjögurra er saknað og mikil eyðilegging hefur orðið. Meðal þeirra sem flúðu voru 25 börn auk starfsfólks á vistheimili fyrir börn í Uummannaq.

Ann Andreassen, forstöðumaður vistheimilisins, sagði í samtali við fréttastofu að seint í gærkvöldi hafi borist fréttir af flóðinu í Nuugaatsiaq og að óttast væri að flóðbylgja skylli á Uummannaq. „Við heyrðum af því að fólks væri saknað og að eyðileggingin væri mikil og urðum því mjög óttaslegin,“ segir Ann. Þau hafi fljótt fengið skilaboð um að flýja upp í fjöllin. „Um miðnætti vöktum við börnin, klæddum þau og tókum með teppi og fórum upp í fjöll. Börnin voru merkilega róleg,“ segir hún. Sjúklingar á spítalanum í bænum voru fluttir í íþróttahús sem stóð hærra í bænum og eldri borgurum var hjálpað upp í fjall.

Mynd með færslu
 Mynd: Ann Andreassen
Ann Andreassen

Íbúar Uummannaq eru um 1300 og að sögn Ann voru nokkur hundruð manns í fjallinu um nóttina. „Við misstum fljótlega samband við fólk í Nuugaatsiaq og við vorum einnig beðin um að nota ekki farsíma okkar. Við hlustuðum því á útvarpsfréttir á hálftíma fresti til að fá nýjustu fréttir af stöðunni og hvenær okkur væri óhætt að fara aftur niður í bæinn,“ segir Ann.

Uummannaq varð fyrir flóðbylgju fyrir nokkrum árum, að sögn Ann, og því hafði fólk séð hver eyðileggingin getur orðið. Enginn hafi farist í flóðbylgjunni þá en talsverðar skemmdir hafi orðið. Ann segir að fólk hafi flýtt sér niður á bryggju til þess að reyna að koma í veg fyrir skemmdir á bátum sínum. „Við höfðum mikið útsýni af fjallinu og fylgdumst með úfnum sjónum og fólki að bjarga bátunum sínum og björgunarþyrlunum fljúga milli þorpanna,“ segir Ann.

Mynd með færslu
 Mynd: Inunnguaq Hegelund

Um klukkan hálf sex í morgun hafi hættuástandi verið aflétt og fólk gat snúið til síns heima. Ekkert flóð hafði orðið. Um hádegi að grænlenskum tíma var starfsfólk vistheimilins enn að koma börnum í ró eftir nóttina. Ann segir að hugur allra sé hjá þeim sem verst urðu úti í flóðunum, þeirra sem misstu ættingja og vini eða heimili sín.

Íbúar Nuugaatsiaq voru fluttir með þyrlum til Uummannaq þar sem þeir dveljast nú.