Flotadeildin fór aldrei til Kóreustranda

19.04.2017 - 02:33
epa05913066 A handout photo made available by the US Department of Defense shows (L-R) the aircraft carrier USS Carl Vinson (CVN 70), leading the Arleigh Burke-class guided-missile destroyer Ticonderoga-class guided-missile cruiser USS Lake Champlain (CG
Flugmóðurskipið Carl Vinson ásamt tundurspilli og orrustuskipi, sem bæði eru búin langdrægum stýriflaugum.  Mynd: EPA  -  US DEPARTMENT OF DEFENSE
Bandarísk flotadeild sem tilkynnt var á dögunum að halda myndi að Kóreuskaganum til að mæta ögrunum Norður-Kóreumanna, sigldi alls ekki þangað og er nú á Indlandshafi, víðs fjarri Kóreuströndum. Þetta hafa fréttastofur og nokkrir bandarískir fjölmiðlar eftir ónefndum heimildarmanni í varnarmálaráðuneytinu bandaríska, Pentagon. Myndir sýna flotadeildina undan ströndum Jövu um helgina, á suðurleið.

Bandarísk flotayfirvöld tilkynntu þann 8. apríl síðastliðinn, að flugmóðurskipið Carl Vinson og meirihluti flotadeildarinnar sem við það er kennd færu ekki til æfinga með ástralska flotanum á Indlandshafi og þaðan í heimsókn til Ástralíu, eins og til stóð. Þess í stað myndu skipin sigla frá Singapúr aftur norður til Kóreuskagans.

Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, staðfesti þann 11. apríl að flotadeildin væri á norðurleið, til Kóreu. Þetta væri viðeigandi svar við ögrunum stjórnvalda í Pjong Jang, sem ekki létu af eldflauga- og kjarnorkutilraunum sinum. Daginn eftir, 12. apríl, bætti Donald Trump um betur og sagði Bandaríkjamenn vera að senda mjög öflugan flota að Kóreuströndum. 

Nú hafa myndir dúkkað upp sem sýna Carl Vinson flugmóðurskipið sigla um Súndasund, milli eyjanna Jövu og Súmötru, síðustu helgi, á suðurleið. AFP-fréttastofan og nokkrir bandarískir fjölmiðlar, þar á meðal New York Times, hafa eftir embættismanni í varnarmálaráðuneytinu að flotadeildin sé nú við æfingar norðvestur af Ástralíu, ásamt skipum úr ástralska flotanum. Carl Vinson-flotadeildin muni hins vegar snúa norður til Kóreuskagans innan sólarhrings og heimsókn hennar til Ástralíu hefði verið aflýst. Skipin eru nú eina 5.900 kílómetra frá Kóreuströndum og eiga því langa siglingu fyrir höndum.

Forseti og ráðherrar fullyrtu að flotadeildin væri á norðurleið

Fréttirnar af því, að Carl Vinson flotadeildinni hefði verið snúið af áætlaðri leið sinni til æfinga með ástralska flotanum og hún send til Kóreu í staðinn fóru hátt og víða, og háttsettir bandarískir embættis- og stjórnmálamenn lýstu því yfir hver af öðrum, að þolinmæði Bandaríkjastjórnar gagnvart yfirgangi og ógnunum Norður-Kóreumanna væri á þrotum. Mike Pence, varaforseti, hafði þetta á orði síðast á mánudag, á fundi með kollega sínum í Seúl.

Stjórnvöld í Pjong Jang fengu einnig fregnir af yfirvofandi heimsókn flotadeildarinnar og sögðu hana skýrt merki um að áætlanir Washingtonstjórnarinnar um innrás í Norður Kóreu væru komnar á alvarlegt stig. Varnarmála- og utanríkisráðherrar Norður Kóreu töluðu digurbarkalega um að þau gætu og myndu mæta hvaða stríðsaðgerðum sem Bandaríkjamönnum dytti í hug að grípa til. 

AFP fréttastofan hefur eftir Joel Wit, sérfræðingi í málefnum Kóreu við John Hopkins-háskólann vestra, að allt sé þetta mál hið undarlegasta og vatn á myllu áróðursmeistara Norður-Kóreustjórnar. Þar sé því haldið mjög á lofti að þrátt fyrir stóryrðin séu hótanir Bandaríkjamanna ævinlega orðin tóm.