Flóðbylgjuviðvörun við Kyrrahafsströndina

08.09.2017 - 12:45
Sjúklingar og starfsfólk sjúkrahúss í Villahermosa þurfti að fara út undir bert loft í öryggisskyni eftir mikinn jarðskjálfta, um miðnætti 8. september.
Sjúklingar og starfsfólk sjúkrahúss í Villahermosa þurfti að fara út undir bert loft í öryggisskyni eftir mikinn jarðskjálfta, um miðnætti 8. september.  Mynd: EPA-EFE  -  EFE
Flóðbylgjuviðvörun hefur verið gefin út við gjörvalla Kyrrahafsströnd Mið-Ameríku, og í Ekvador, eftir jarðskjálftann undan ströndum Mexíkó. Að minnsta kosti fimmtán létu lífið í skjálftanum, sem var 8,1 til 8,2 að stærð. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í gjörvöllu Chiapas-ríki, næst upptökum skjálftans.

Vala Hjörleifsdóttir jarðskjálftafræðingur býr og starfar í Mexíkóborg. Hún segir að skjálftinn virðist vera sá stærsti í landinu í að minnsta kosti 100 ár.

„Þetta virðist vera stærsti skjálfti sem orðið hefur í Mexíkó að minnsta kosti síðustu hundrað ár. Þannig að við höfum náttúrulega miklar áhyggjur af þessu. (...) Það virðast ansi ljótar myndir vera að koma af svæðinu.“ Segir Vala. Hún segir að svæðið þar sem skjálftinn varð, sé frekar afskekkt og viðbúið að fregnir þaðan berist ekki strax.

Rafmagnslaust varð víða í kjölfar skjálftans. Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó, sagði í ávarpi að um 50 milljónir landsmanna hefðu orðið varir við skjálftann. Hann varaði við því að margir kunni að hafa látið lífið.

Skemmdir á húsum í Oaxaca, í Mexíkó, í næsta ríki við Chiapas, þar sem upptök jarðskjálftans voru.
Skemmdir á húsum í Oaxaca, í Mexíkó, í næsta ríki við Chiapas, þar sem upptök jarðskjálftans voru.  Mynd: EPA-EFE  -  EFE
Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV