Fljúgandi læknar í 30 ár

04.03.2016 - 20:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrjátíu ár eru síðan læknar urðu hluti af áhöfnum á þyrlum Landhelgisgæslunnar í útköllum. Tímamótunum var fagnað við þyrlupallinn við slysadeild Landspítalans í Fossvogi í dag. Læknir segist ekki vera hræddur við neitt eftir að hafa unnið á þyrlunum.

TF-Líf, þyrla Gæslunnar, lenti á þyrlupallinum í hádeginu, en í þetta skipti án sjúklings. Á móti tóku fyrrverandi og núverandi starfslið Gæslunnar og spítalans, sem saman sinnir þjónustu við sjúklinga sem flogið er með á spítalann. 

Björguðum mörgum mannslífum

Fyrsta flugið var farið 20. febrúar 1986 og fyrsta árið unnu læknarnir í sjálfboðavinnu. Guðmundur Björnsson, sem var einn af fyrstu læknunum á þyrlunum, segir að fyrir þrjátíu árum hafi kannski ekki verið skilningur fyrir mikilvægi þess að hafa lækna með á þyrlunum. „Það var mikil barátta að reyna að fá fjárveitingu fyrir þessu starfi læknis sem hluta af áhöfn þyrlu Gæslunnar. Það tókst ekki þannig að við ákváðum að fara í það bara sjálfir, settum á vaktina með samþykki spítalans hér, unnum bara í okkar frítíma í heilt ár og það margsannaði sig þessi þjónusta á þeim tíma. Ég leyfi mér að fullyrða að við björguðum mörgum mannslífum.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Erum að tala um mannslíf en ekki aura

Bergur Stefánsson yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa segir að læknir gangi nú þyrluvaktir allan sólarhringinn og það skipti ótrúlega miklu máli að læknar séu hluti af áhöfn. Það hafi margoft sýnt sig að það skipti sköpum. Ekki hefur alltaf fengist nægt fjármagn til að halda uppi þjónustunni. „Þetta hefur lent í skelfilegum flokkspólitískum þar sem að fólk hefur notað þetta sem spil í pólitískum leik. En við þurfum að horfa á stóru myndina, við þurfum að hugsa um af hverju erum við að þessu? Við erum að tala um mannslíf 1940 ekki aura. “

Ekki hræddur við neitt eftir reynsluna 

Guðmundur segir að þyrluvinnan hafi verið mikil reynsla og ólíkt öðrum læknastörfum. „Þetta var á sínum tíma fyrir mig alveg stórkostleg upplifun og kenndi mér að taka erfiðar ákvarðanir, þreyttur og um miðja nótt. Og í raun og veru eftir þetta tímabil sem ég var læknir á þyrlunni þá finnst mér ég ekki vera hræddur við neitt.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þyrluáhöfn stillir upp í sams konar myndatöku og hún gerði fyrir 30 árum
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV