Flestir Íslendingar fóru á Everest

12.01.2016 - 04:03
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Tekjur kvikmyndahúsa á Íslandi jukust um rúmlega fjögur prósent í fyrra frá árinu áður. Í fyrsta sinn frá árinu 2009 var aukning á aðsókn á milli ára. Tekjuhæsta íslenska kvikmyndin 2015 var Hrútar, en Everest í leikstjórn Baltasars Kormáks trónir á toppi aðsóknar- og tekjulistans.

Efstu fjórar myndirnar fengu yfir 50 þúsund áhorfendur í kvikmyndasali sem telst fátítt að sögn Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, FRÍSK, sem tók listann saman.

Flestir mættu til þess að sjá Everest, rúmlega 67 þúsund, og þénaði hún tæpar 90 milljónir í miðasölu. 

Næsttekju- og aðsóknarmest var svo nýjasta Stjörnustríðsmyndin, The Force Awakens, en hún var ekki tekin til sýninga fyrr en um miðjan desember. Tæplega 59 þúsund sáu hana fram að áramótum og greiddu samanlagt tæpar 78 milljónir króna fyrir.

Þriðja tekjuhæst var James Bond myndin Spectre og í sætinu fyrir neðan hana er teiknimyndin um Skósveinana, Minions. Fleiri fóru þó að sjá Minions og er hún í þriðja sætinu yfir þær aðsóknarmestu, með ríflega 54 þúsund áhorfendur.

16 íslenskar kvikmyndir voru sýndar í kvikmyndahúsum í fyrra, samanborið við níu myndir árið 2014. Þrátt fyrir það var aðsókn á íslenskar myndir minni en árið áður. Hrútar fengu flesta áhorfendur, rúmlega 20 þúsund, og greiddu þeir tæpar 30 milljónir fyrir. Hrútar urðu í 14. sæti yfir allar kvikmyndir. Alls var hlutdeild íslenskra mynda á markaðnum aðeins um 4,8 prósent á móti 13,3 prósentum árið áður.

Listann yfir 20 tekjuhæstu kvikmyndirnar á Íslandi lítur svona út:

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV