Flestir brunnu inni í bílum sínum - myndskeið

19.06.2017 - 16:23
Flestir þeirra sem létu lífið í miklum skógareldum í Portúgal um helgina brunnu inni í bílum sínum. Minnst sextíu slösuðust, þar á meðal er fjöldi slökkviliðsmanna sem tók þátt í slökkvistarfinu.

Hundruð slökkviliðsmanna tóku þátt í aðgerðunum en þeir voru kallaðir til aðstoðar seint á laugardag. Eldurinn braust út í Perdrogao Grande, um miðbik Portúgals og breiddist mjög hratt út. Antonio Costa, forsætisráðherra Portúgals, segir þetta einn versta harmleik sem tengist skógareldum í landinu í marga áratugi. 

Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir í Portúgal vegna eldanna. Óttast er að fleiri hafi sakað. Eldarnir kviknuðu á laugardag en hitabylgja hefur gengið yfir landið og hitinn víða farið yfir fjörtíu gráður.