Flensa: Opið lengur á sumum heilsugæslustöðvum

25.02.2016 - 09:22
Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Þrjár tegundir af inflúensu hrjá landsmenn og hefur það valdið álagi á Landspítalann og hafa flensusjúklingar verið hvattir til að leita frekar til heilsugæslunnar og Læknavaktarinnar. Lovísa Agnes Jónsdóttir deildarstjóri á flæðisviði, segir að ásóknin á Landspítalann hafi verið aðeins minni í gær en daginn á undan.

„Það er búið að vera fullt það sem af er þessu ári og mikil ásókn til Landspítalann og þessvegna erum við að beina fólki sem er minna veikt og þarf mögulega minni þjónustu á heilsugæsluna og Læknavaktina. Til okkar sækir bráðveikt fólk sem þarfnast innlagnar og spítalinn er búinn að vera fullur lengi. Þetta eykur í þegar flensan kemur.“

Rætt var við Lovísu í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hún segir ákallið virka og beina fólki á réttan stað. „Heilsugæslustöðvarnar hafa núna brugðist við með því að bæta við mannskap og mögulega einhverjir hafa rýmkað afgreiðslutíma eða bætt við tímum hjá sér. Þannig að það ætti að auðvelda aðkomu fólks að heilsugæslunni. En áfram eiga bráðveikir að sjálfsögðu að koma á bráðamóttökuna í Fossvogi.“